Innlent

Ný dagskrá í burðarliðnum fyrir flokksþing Framsóknarflokksins

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð berjast um formennsku í Framsóknarflokknum á flokksþingi sem fram fer um helgina.
Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð berjast um formennsku í Framsóknarflokknum á flokksþingi sem fram fer um helgina. vísir/garðar
Enn er ekki gert ráð fyrir að forsætisráðherra verði úthlutaður ræðutími á flokksþingi Framsóknarflokksins sem hefst í Háskólabíói í fyrramálið. Landsstjórn flokksins kom saman til fundar í gær þar sem ræða átti þetta mál, en erfiðlega hefur gengið að fá einhvern í flokknum til að staðfesta að breytingar verði gerðar á dagskránni.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar verður ný dagskrá flokksþings sett inn á heimasíðu flokksins fljótlega upp úr hádegi en ekki fæst staðfest hvort þar sé gert ráð fyrir að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra ávarpi flokksþingið. Það verður formlega sett klukkan hálf tíu í fyrramálið og líkur síðdegis á sunnudag.

Ekki gert ráð fyrir ræðu Sigurðar Inga í drög að dagskrá

Samkvæmt dagskrá fundarins sem nú er á heimasíðu flokksins er enn ekki gert ráð fyrir að Sigurður Ingi hafi þar sérstakan ræðutíma, en að lokinni afhendingu bjartsýnisverðlauna Framsóknarflokksins flytur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins um klukkustundar langa yfirlitsræðu.

Þegar hann hefur lokið ræðu sinni upp úr klukkan tólf á hádegi á morgun er gert ráð fyrir almennum umræðum til klukkan fjögur þegar nefndarstörf hefjast. Telja má að óbreyttu að forsætisráðherra muni þá taka til máls eins og hann gerði á miðstjórnarfundi flokksins á Akureyri á dögunum þar sem honum var heldur ekki úthlutaður sérstakur ræðutími.

Kosning formanns, varaformanns, ritara, fulltrúa í laganefnd og í siðanefnd fer síðan fram samkvæmt dagskránni klukkan hálf tólf á sunnudag. Fljótlega eftir það mun liggja fyrir hvort Sigmundur Davíð eða Sigurður Ingi leiði flokkinn í komandi kosningum.

Yfir þúsund manns eiga rétt á að sækja flokksþingið

Mikill óróleiki hefur verið innan flokksins undanfarnar vikur og mánuði en erfitt er að spá fyrir um úrslit í formannskjöri. Niðurstaðan mun hins vegar geta breytt miklu um stöðu flokksins í kosningunum og að þeim loknum. Ef Sigmundur Davíð vinnur með miklum mun gæti það vissulega styrkt stöðu hans þar sem hann hefði þá ótvírætt umboð flokksins.

Það sama á við ef Sigurður Ingi vinnur með miklum mun. Aftur á móti má ljóst vera að hvernig sem fer mun taka tíma að gróa um sár sem orðið hafa til innan flokksins að undanförnu.

1049 manns eiga rétt á að sækja flokksþingið, þar með taldir allir núverandi og fyrrverandi þingmenn flokksins og hátt í tvö hundruð miðstjórnarfulltrúar, ásamt sérstaklega kjörnum fulltrúum. Fjölmenn framsóknarfélög eru í Reykjavík, sem og á Suðurlandi og á Norðausturlandi, kjördæmum formannsins og forsætisráðherrans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×