Skoðun

Nú fitnaði bílastæðasjóður!

Dagþór Haraldsson skrifar
Dagurinn er 22. ágúst. Menningarnótt. Hátíðisdagur allra Reykvíkinga. Öllum miðbænum lokað fyrir bílaumferð. Aðgangur er tepptur í öll bílastæðahús borgarinnar. Búinn er til skortur á bílastæðum. Á sama tíma er búist við vel yfir 100 þúsund manns í miðborgina. Boðið er upp á frítt far í almenningsvagnana en það getur aldrei hentað öllum.

Skutla á að ferja fólk frá Kirkjusandi og niður í bæ, en byrjar ekki fyrr en tólf. Grandvaralaus borgari ákveður að mæta í „glæpagöngu“ sem átti að hefjast við stjórnarráðshúsið klukkan ellefu. Helst þótti vænlegt að finna bílastæði við HÍ, en þar var ekki stæði að finna á afmarkaða bílastæðinu. En röð bíla hafði verið lagt upp á gras við bílastæðið og viðkomandi þóttist heldur heppinn að þar var eitt stæði laust. Þessi röð bíla var ekki fyrir neinum og olli engum skemmdum. Sumsé öllum að meinalausu.

„Glæpagöngunni“ lauk um eitt og þegar komið var aftur að bílnum þá beið „glaðningurinn“ eða hitt þó heldur. Miði á framrúðunni og sekt upp á heilar 10 þúsund krónur! „Stórglæpa“varnarsveit Reykjavíkur hafði verið kölluð út til að notfæra sér þessar heimatilbúnu kjöraðstæður. Tækifærið gat ekki verið betra til að láta „svínin“ finna fyrir því. Það væri gaman að fá uppgefna upphæðina, sem Reykjavík tókst komast yfir þennan svokallaða hátíðisdag, sem var svo sannarlega ekki hátíðisdagur allra.

Upphæð sekta á að ákvarðast af tvennu. Fyrst skal telja alvarleika brotsins og hvaða afleiðingar brotið hefði getað haft á samfélagið og samborgarana. Síðan að fæla fólk frá því að brjóta af sér, þar sem það veit að annars er sekt yfirvofandi. Að rukka 10 þúsund krónur í þessu tilfelli er einfaldlega valdbeiting framkvæmd af löglegu yfirvaldi og er ekki í neinu samhengi við brotið sjálft. 5 þúsund hefði verið hægt að sætta sig við.

Er ekki kominn tími til að borgaryfirvöld láti af ofsóknum sínum gagnvart bíleigendum? Hlutverk borgarstjórnar er að vinna fyrir alla borgarana, en ekki láta öfgastefnufólki eftir að fara offari gegn samborgurum sínum. Þetta eru ljótar og lúalegar aðferðir borgaryfirvalda.

Ég skal glaður borga 5 þúsund fyrir þessa yfirsjón mína, en ég óska eftir að „valdbeitingar“hlutinn (5 þúsund krónur) verði endurgreiddur.




Skoðun

Sjá meira


×