Innlent

Notkun á við Dani myndi spara 300 milljónir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Notkun Íslendinga á svefnlyfjum hefur þótt mikil í samanburði við mörg önnur lönd.
Notkun Íslendinga á svefnlyfjum hefur þótt mikil í samanburði við mörg önnur lönd. Nordicphotos/Getty
Væri notkun Íslendinga á svefn- og slævandi lyfjum sambærileg við notkun Dana hefði íslenskt samfélag sparað um 300 milljónir króna vegna lyfjakaupa á síðasta ári. Þá myndi beinbrotum aldraðra og umferðarslysum hugsanlega fækka um leið með ómældum sparnaði fjármuna.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Lyfjastofnunar á notkun Íslendinga á svefnlyfjum og slævandi lyfjum.

Fram kemur að á síðustu fimm árum hafi notkun þessara lyfja dregist nokkuð saman hér á landi, en sé þó enn umtalsvert meiri hér en á öðrum Norðurlöndum. Danir nota minnst Norðurlandabúa af svefnlyfjum og slævandi lyfjum, en fyrir 12 árum settu dönsk heilbrigðisyfirvöld sér það markmið að minnka notkun svefnlyfja og róandi lyfja um helming á fimm árum. Var það gert vegna afleidds kostnaðar af völdum lyfjanna, svo sem umferðarslysa og slysa á heilbrigðisstofnunum.

„Þetta markmið náðist ekki, en tíu árum síðar hafði notkunin þó minnkað um 44 prósent og fer enn minnkandi,“ segir í umfjölluninni.

Lyfjastofnun hefur eftir stofnun heilbrigðismála í Danmörku, Sundhedsstyrelsen, að árangur þar hafi náðst vegna aukinna upplýsinga til almennings og lækna um svefnlyfjanotkun, breyttra ávísanavenja lækna, strangari reglna um endurnýjun lyfseðla og strangra reglna um endurnýjun ökuleyfa til þeirra sem nota svefnlyf að staðaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×