Erlent

Notast við Tabasco-sósu í ebóluþjálfuninni

Atli Ísleifsson skrifar
Tabasco-sósa.
Tabasco-sósa. Vísir/Getty
Heilbrigðisyfirvöld í Texas notast nú við Tabasco-sósu við þjálfun þar sem heilbrigðisstarfsfólki er kennt hvernig skuli meðhöndla ebólusmitaða sjúklinga.

Viðbragðsteymi við University of Texas Southwestern Medical Center hafa notast við „gervisjúklinga“ sem hafa verið úðaðir með Tabasco-sósu í stað ebólusmitaðra líkamsvessa. Læknar og hjúkrunarfræðingar hafa svo æft hvernig skuli fara í og úr hlífðarbúnaði til að forðast smit, en finni þeir fyrir Tabasco á húðinni vita þeir að þeir hafa „smitast“.

„Þessi aðferð gefur okkur svar umsvifalaust,“ segir Bruce Meyer, yfirlæknir við sjúkrahúsið, sem segist þakka Doramarie Arocha, yfirmanni sóttvarnadeildar sjúkrahússins, fyrir hugmyndina.

Þegar sósan kemst í snertingu við húð skapast ákveðin brunatilfinning, sem hefur komið sér vel í þjálfuninni.

Hjúkrunarfræðingurinn Elizabeth Thomas segir teymið upphaflega hafa æft sig með venjulegri tómatsósu, allt þar til Arocha kom með hugmyndina að Tabasco-sósunni. „Að æfingu lokinni tökum við af okkur hlífðarbúnaðinn og nuddum augun með höndunum. En við höfum ekki fundið fyrir neinni brunatilfinningu svo við vitum að við höfum verið að gera hlutna rétt,“ segir Thomas í samtali við ABC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×