Erlent

Norskur liðsmaður ISIS dæmdur í fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Kristian Michelsen er 34 ára gamall.
Kristian Michelsen er 34 ára gamall. PST
Dómstóll í Noregi hefur dæmt 34 ára Norðmann í sjö og hálfs árs fangelsi vegna þátttöku hans í starfsemi hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Norskir fjölmiðlar segja manninn, Kristian Michelsen, vera frá Verdal, norðaustur af Þrándheimi, og að hann eigi að hafa framkvæmt brotin milli nóvember 2014 til apríl 2016.

Í ákæru segir að maðurinn beri ábyrgð á fjölda brota sem hafi haft það að markmiði að valda hræðslu meðal almennings. Þá á hann að hafa tekið þátt í hernaði ISIS-sveita.

Maðurinn neitaði sök og sagðist hafa ferðast til Sýrlands til að aðstoða Sýrlendinga gegn ofríki Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Dómurinn taldi hins vegar fullsannað að hann hafi tekið þátt í aðgerðum hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Hinn dæmdi er sá Norðmaður sem hafi dvalið í lengstan tíma á yfirráðasvæði ISIS og síðar snúið aftur til Noregs. Hann hyggst áfrýja dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×