Handbolti

Norsku stelpurnar töpuðu fyrsta leiknum sínum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/AP
Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska kvennalandsliðinu í handbolta töpuðu í kvöld sínum fyrsta leik á Evrópumótinu í handbolta en það kom ekki að sök þar sem liðið var þegar búið að tryggja sér sigur í milliriðli eitt og um leið sæti í undanúrslitum keppninnar.

Ungverska liðið sem er á heimavelli vann fjögurra marka sigur á Noregi, 29-25, og um leið þriðja sætið í riðlinum og sæti í leiknum um fimmta sætið.

Danska liðið sem steinlá fyrir Spánverjum fyrr í kvöld endaði því í fjórða sæti og hefur lokið keppni á mótinu.

Norska liðið var búið að vinna fimm fyrstu leiki sína á mótinu og komst í 4-1 og 7-4 í leiknum í kvöld. Ungverska liðið skoraði sjö síðustu mörk fyrri hálfleiks og leiddi 15-11 í leikhléi.

Ungverska liðið skoraði síðan fjögur af fyrstu sex mörkum seinni hálfleiksins, komst í 19-13 og leit ekki til baka eftir það.

Noregur mætir Svíþjóð í undanúrslitaleiknum á föstudaginn en í hinum leiknum mætast Svartfjallaland og Spánn.

Ungverjaland og Frakkland spila um fimmta sætið á mótinu. Frakkar tryggðu sér þriðja sætið í sínum milliriðli og þar með sætið í riðlinum með því að vinna Holland 20-18 í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×