Fótbolti

Norski landsliðsbúningurinn „eins og tjald“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Isabell Herlovsen, til hægri, í nýja norska búningnum.
Isabell Herlovsen, til hægri, í nýja norska búningnum. Vísir/EPA
Leikmenn norska landsliðsins eru ekki ánægðir með nýja Nike-búninginn sem þær munu spila í á HM í sumar.

Norska knattspyrnusambandið hóf nýlega samstarf við íþróttavörurisann Nike um að framleiða búninga fyrir landslið sín. Norsku konurnar fengu þó treyjur sem voru þó ekki framleiddar sem kvennafatnaður. Þeim var lýst sem „unisex“ - hentugum fyrir bæði kyn.

„Við vitum að þeir gerðu sitt besta og fengu ekki mikinn tíma til þess en það er afar óheppilegt að við verðum í búningum sem eru eins og tjald á okkur,“ sagði Trine Rönning, fyrirliði norska landsliðsins, við fjölmiðla ytra.

Noregur er í ellefta sæti styrkleikalista FIFA í kvennaflokki en 70. sæti meðal karlaliðanna. Norska knattspyrnusambandið hefur legið undir ámæli fyrir ranga forgangsröðun.

„Í fullkomnum heimi hefðum við viljað fá búninga sem væru sérsniðnir fyrir konur. En það tekur tíma að koma nýju samstarfi af stað og að fá rétta búninga úr framleiðslu,“ sagði Ove Nystuen hjá norska sambandinu.

„En HM í Kanada verður eina mótið þar sem norska liðið mun ekki spila í sérsniðnum treyjum fyrir konur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×