Erlent

Norsk yfirvöld orðin heit fyrir því að gefa Finnum fjall í afmælisgjöf

Birgir Olgeirsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Vísir/EPA
Norsk yfirvöld eru að íhuga að gefa Finnum alfarið fjallið Halti fjall í tilefni af því að á næsta ári verða hundrað ár eru frá því finnska þjóðin fékk sjálfstæði.

Fjallið Halti liggur á landamærum Noregs og Finnlands. Státar fjallið af tveimur tindum, annar tindurinn liggur innan landamæra Finnlands en hinn innan landamæra Noregs. Lægri tindurinn, Halditjakko er í 1.331 metra hæð og Finnlandsmegin en Halti, í 1.365 metra hæð, er 20 metrum fyrir innan landamæri Noregs.

„Það eru nokkur formlegheit í vegi fyrir þessari ákvörðun og ég á enn eftir að gera upp hug minn,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK fyrir skemmstu. „Tindurinn yrði dásamleg gjöf frá nágrönnum okkar,“ sagði bæjarstjóri Kafjord, Svei Leiros sem hefur ásamt öðrum sveitarstjórnarmönnum skrifað stjórnvöld í Noregi bréf til að lýsa yfir stuðningi með þessar áætlanir Norðmanna.

Norski jarðfræðingurinn Bjorn Geir Harsson er sagður hafa átt hugmyndina að þessari gjöf þegar hann komst að því í fyrra að 6. desember á næsta ári verða hundrað ár frá því Finnar fengu sjálfstæði frá Rússum. Harsson fannst kjörið að gefa Finnum tindinn því hann sagðist hafa orðið gáttaður þegar hann flaug yfir fjallið á áttunda áratug síðustu aldar og sá á hvernig landamæri Noregs og Finnlands liggja. Landamærin eru nánast bein lína sem var teiknuð á átjándu öld en Harsson hefur látið hafa eftir sér að sú lína sé órökrétt og ósanngjörn í garð Finna sem urðu þar með af sínum hæsta tindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×