Fótbolti

Noregur enn án stiga | Rúmenía og Svartfjallaland með sýningu | Sjáðu mörkin

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Það er farið að hitna undir Högmo þjálfara Noregs
Það er farið að hitna undir Högmo þjálfara Noregs vísir/getty
Noregur tapaði 1-0 á útivelli fyrir Azerbaijan í undankeppni Heimsmeistarakeppninnar í fótbolta í Rússlandi 2018.

Maksim Medvedev skoraði sigurmarkið á 11. mínútu og stóðust heimamenn allar atlögur Noregs að því að jafna leikinn.

Liðin eru í C-riðli og er Noregur enn án stiga en liðið náði ekki að skora í tveimur fyrstu leikjum sínum. Azerbaijan er aftur á móti með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Tveimur leikjum í E-riðli er lokið og var hvorugur þeirra spennandi. Rúmenía rúllaði yfir Armeníu 5-0. Armeninn Gor Malakyan fékk að líta rauða spjaldið strax á 3. mínútu og nýtti Rúmenía sér liðsmuninn til fullnustu.

Bogdan Stancu skoraði úr vítaspyrnu á 4. mínútu. Sjö mínútum síðar var staðan orðin 3-0 því Adrian Popa og Razvan Marin skoruðu þá með mínútu millibili.

Nicolae Stanciu skoraði fjórða markið á 29. mínútu og var staðan 4-0 í hálfleik.

Alexandru Chipciu skoraði fimmta markið og eina mark seinni hálfleiks á 59. mínútu.

Rúmenía er með fjögur stig eftir tvo leiki en Armenía er án stiga.

Í hinum leikjum vann Svartfjallaland öruggan sigur á Kasakstan 5-0. Zarko Tomaseivc skoraði eina mark fyrri hálfleiks en eftir hálfleikinn opnuðust flóðgáttir að marki Kasakstan.

Nikola Vukcevic skoraði annað mark Svartfjallalands á 59. mínútu. Fimm mínútum síðar skoraði Stevan Jovetic og á 73. mínútu bætti Fatos Beciraj við fjórða markinu. Stefan Savic skoraði fimmta markið tólf mínútum fyrir leikslok.

Svartfjallaland er með fjögur stig eftir leikina tvo og Kasakstan eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×