Erlent

Norður-Kórea hættir kjarnorkutilraunum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Kim Jong-un heilsar þjóðaröryggisráðgjafa Suður-Kóreu í síðasta mánuði.
Kim Jong-un heilsar þjóðaröryggisráðgjafa Suður-Kóreu í síðasta mánuði. Vísir/AFP
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, tilkynnti í dag að Norður-Kórea myndi ekki gera frekari tilraunir með kjarnorkuvopn. Þá verða kjarnorkutilraunasvæði landsins lokuð. The Guardian greinir frá.

Kim sagði að ekki væri þörf fyrir frekari tilraunir sökum þess að tilgangi þeirra hefði verið náð. Norður-Kóreumenn gerðu sex tilraunir með kjarnorkuvopn í fyrra.

Í næstu viku funda Kim Jong Un og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, um ástandið á Kóreuskaganum. Helsta tilefni ráðstefnunnar er að koma á varanlegu friðarsamkomulagi. Í dag voru skrifstofur leiðtoga Suður- og Norður-Kóreu tengdar saman með beinni símalínu sem gerir þeim kleift að ræða saman milliliðalaust og án fyrirvara. Má því segja að milliríkjasamskipti landanna fari hratt batnandi.

Gert er ráð fyrir að Kim Jong-un fundi með Donald Trump Bandaríkjaforseta í júní. Það verður í fyrsta sinn í sögunni sem leiðtogar ríkjanna hittast.


Tengdar fréttir

Bein lína á milli leiðtoga Kóreuríkjanna í fyrsta sinn

Skrifstofur leiðtoga Suður- og Norður-Kóreu hafa verið tengdar saman með beinni símalínu sem gerir þeim kleift að ræða saman milliliðalaust og án fyrirvara. Leiðtogar Kóreuríkjanna hafa aldrei áður verið í svo beinu sambandi.

Vilji fyrir algerri afvopnun

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa tjáð nágrönnum sínum í suðri vilja sinn til þess að afkjarnorkuvæða Kóreuskaga alfarið.

Forstjóri CIA fundaði með Kim Jong-un

Mike Pompeo, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA og verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa ferðast til Pjongjang, höfuðborgar Norður-Kóreu, þar sem hann á að hafa fundað með leiðtoga ríkisins, Kim Jong-un.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×