Erlent

Norður-Írar fá nokkrar vikur til að mynda stjórn áður en bresk stjórnvöld taka yfir

Kjartan Kjartansson skrifar
Lítið hefur verið um að vera í Stormont-kastala þar sem norður-írska þingið kemur alla jafnan saman síðasta árið.
Lítið hefur verið um að vera í Stormont-kastala þar sem norður-írska þingið kemur alla jafnan saman síðasta árið. Vísir/AFP
Stærstu stjórnmálaflokkar Norður-Írlands hafa aðeins nokkrar vikur til að mynda saman stjórn áður en bresk stjórnvöld taka völdin í sínar hendur. Heimastjórnin og þingið hafa legið í lamasessi í heilt ár eftir að stjórnarsamstarfið sprakk í loft upp.

Pattstaða hefur verið uppi í norður-írskum stjórnmálum frá því að Sinn Fein, flokkur þjóðernissinnaðra Íra, hætti stjórnarsamstarfi við Lýðræðislega sambandsflokkinn (DUP) í janúar í fyrra. Saman hafa flokkarnir farið með völdin á Norður-Írlandi frá 2007.

Belfast-samkomulagið, friðarsamkomulagið sem batt enda á áratugalöng átök sem skrifað var undir árið 1998, kveður á um að flokkar kaþólikka og mómælenda þurfi að mynda heimastjórnina saman.

Til stendur að hefja nýjar viðræður í næstu viku. Bæði Karen Bradley, nýskipaður ráðherra málefna Norður-Írlands í bresku ríkisstjórninni, og Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, segja að aðeins séu nokkrar vikur til stefnu frekar en mánuðir til að ná samkomulagi. Bradley ætlar að gefa breska þinginu skýrslu um stöðu viðræðnanna 7. febrúar, að því er segir í frétt Reuters.

„Án samkomulags stöndum við frammi fyrir pólitískum afleiðingum sem munu tákna verulegt bakslag í ferlinu sem hefur verið í gangi frá því að skrifað var undir Belfast-samkomulagið,“ segir Bradley.

Bresk stjórnvöld settu Norður-Írum fjárlög í fyrra í fjarveru starfshæfs þing og framkvæmdavalds þar. Taki Bretar alfarið við völdum yfir Norður-Írlandi óttast sumir að það geti ógnað stöðugleika og friði sem tekist hefur að halda síðustu tvo áratugina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×