Handbolti

Norðmenn verða ekki með HM í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norska karlalandsliðinu í handbolta mistókst í kvöld að tryggja sér sæti á HM í Frakklandi sem fer fram í janúar næstkomandi.

Norðmenn unnu tveggja marka sigur, 29-27, í seinni leiknum á móti Slóveníu sem fram fór í Stavanger í kvöld. Það dugði hinsvegar ekki til því Slóvenar unnu fyrri leikinn með sex marka mun á sínum heimavelli fyrir fjórum dögum.

Norðmenn voru samt í ágætum málum fjórum mínútum fyrir leikslok en þá voru þeir komnir með fimm marka forystu, 29-25. Slóvenska liðið skoraði hinsvegar þrjú síðustu mörk leiksins og því sátu Norðmenn eftir með sárt ennið.

Espen Lie Hansen var markahæstur í norska liðinu með sex mörk en þeir Kent Robin Tönnesen og Kristian Björnsen skoruðu báðir fimm mörk. Dean Bombac skoraði átta mörk fyrir Slóveníu og Simon Razgor var næstmarkahæstur með sex mörk.

Marko Bezjak skoraði tvö af þremur mörkum sínum á síðustu þremur mínútunum sem Slóvenar unnu 3-0.

Norska liðið varð í 4. sæti á Evrópumótinu í Póllandi fyrr á þessu ári en hefur síðan mistekist að tryggja sér sæti bæði á Ólympíuleikunum í Ríó og á heimsmeistaramótinu.

Það er allt aðra sögu að segja af Slóvenum. Þeir urðu bara í fjórtánda sæti á EM en tryggðu sér sæti á ÓL með því að ná öðru af tveimur efstu sætunum í umspilinu um laus Ólympíusæti í apríl og komust síðan á HM í kvöld.

Íslenska handboltalandsliðið á möguleika á því að fylgja Slóvenum á HM en seinni leikur Íslands og Portúgals fer fram í Portúgal á morgun. Íslenska liðið hefur þriggja marka forskot síðan úr fyrri leiknum í Laugardalshöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×