ŢRIĐJUDAGUR 28. MARS NÝJAST 16:26

Útópía í Marshallhúsinu

SKOĐANIR

Norđmenn töpuđu óvćnt stigi gegn Makedóníu

 
Handbolti
18:59 25. JANÚAR 2016
Harald Reinkind í baráttunni viđ Makedóníumanninn Zarko Pesevski í dag.
Harald Reinkind í baráttunni viđ Makedóníumanninn Zarko Pesevski í dag. VÍSIR/AFP

Noregur mátti sætta sig við jafntefli gegn Makedóníu, 31-31, á EM í Póllandi í dag. Stigið dugði Noregi engu að síður til að koma sér í efsta sæti milliriðils 1 fyrir lokaumferðina sem fer fram á fimmtudag.

Makedónía kom stigalaust inn í milliriðilinn og tapaði fyrir Króatíu á fimmtudaginn. Norðmenn komu hins vegar með fjögur stig inn í milliriðilinn og afrekaði á laugardaginn að verða fyrsta liðið til að leggja gestgjafa Póllands að velli á laugardaginn.

Það kom því mjög á óvart að Makedónía byrjaði betur í dag og leiddi í hálfleik, 17-13. Varnarleikurinn og markvarslan var slök hjá Norðmönnum sem lentu mest fimm mörkum undir í síðari hálfleik.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka náðu Norðmenn að koma sér almennilega inn í leikinn. Kent Robin Tönnesen jafnaði svo metin fyrir Noreg þegar átta mínútur voru eftir, 28-28.

Leikurinn var æsispennandi eftir það og Norðmenn komust yfir með marki Magnúsar Jörndal þegar fjórar mínútur voru eftir, 31-30. Varamarkvörðurinn Espen Christensen fór einnig á kostum og varði næstu tvö skot Makedóníu í leiknum.

En Norðmenn voru sjálfir sér verstir í sókninni og klúðruðu síðustu þremur sóknum sínum í leiknum. Filip Mirkulovski jafnaði metin fyrir Makedóníu, 31-31, þegar ein og hálf mínúta var eftir og Makedóníumenn fengu boltann aftur eftir að ruðningur var dæmdur á Christian O'Sullivan þegar 47 sekúndur voru eftir af leiknum.

Norska vörnin stóð hins vegar vaktina vel og Makedónía náði ekki að tryggja sér sigurinn með síðasta skoti sínu í leiknum.

Kristian Björnsen skoraði sex mörk fyrir Noreg og Kiril Lazarov var að venju atkvæðamikill fyrir Makedóníu og skoraði ellefu mörk. Borko Ristovski varði ellefu skot í marki Makedóníu en markverðir Noregs vörðu aðeins sex skot allan leikinn. En innkoma Christensen undir lokin var sem fyrr segir afar dýrmæt.

Noregur er nú með sjö stig í riðlinum en Frakkar eru í öðru sæti með sex. Pólverjar geta komist í sex stig með sigri á Hvíta-Rússlandi síðar í kvöld. Króatía er svo í fjórða sæti riðilsins með fjögur stig.

Lokaumferðin verður æsispennandi. Pólverjum dugar að vinna Króatíu á fimmtudag til að komast áfram í undanúrslit þar sem að Noregur og Frakkland mætast innbyrðis. Þar mun Norðmönnum duga jafntefli til að fara í undanúrslitin.


Deila
Athugiđ. Allar athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra er ţćr rita. Vísir hvetur lesendur til ađ halda sig viđ málefnalega umrćđu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til ađ fjarlćgja ćrumeiđandi eđa ósćmilegar athugasemdir og ummćli ţeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

 

MEST LESIĐ

  • Nýjast á Vísi
  • Mest Lesiđ
  • Fréttir
  • Sport
  • Viđskipti
  • Lífiđ
Forsíđa / Sport / Handbolti / Norđmenn töpuđu óvćnt stigi gegn Makedóníu
Fara efst