Erlent

Norðmenn sækja 3.000 milljarða króna úr olíusjóðnum

Atli Ísleifsson skrifar
Siv Jensen fjármálaráðherra.
Siv Jensen fjármálaráðherra. Vísir/AFP
Norska ríkisstjórnin kynnti fjárlagafrumvarp sitt í morgun. Áttunda hver króna er sótt í olíusjóð landsins, en í frétt E24 segir að alls sæki stjórnin 194 milljarða norskar krónur, um 3.000 milljarða íslenskar, úr sjóðnum.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi fjárlagafrumvarpið harðlega í norska þinginu í dag, þar á meðal frá þingmenn Ventre, samstarfsflokks minnihlutastjórnar Hægriflokksins og Framfaraflokksins.

„Umfang nýtingar olíupeninganna vekur ugg og er ekki sjálfbært til lengri tíma,“ segir Terje Breivik, þingmaður Venstre.

Marianne Marthinsen, þingmaður Verkamannaflokksins, var einnig harðorð og bendir á að hægristjórnin hafi nú sótt jafnmikið fé úr olíusjóðnum á þremur árum og vinstristjórnin gerði alls á árunum 2005 til 2013. „Þeir nota peninga sem tilheyra kynslóðunum sem á eftir okkur koma.“

Fjármálaráðherrann Siv Jensen segir aðgerðirnar nauðsynlegar til að bregðast við lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu.

Ríkisstjórnin vill efla efnahag landsins með því að lækka skatta um 9,1 milljarða norskra króna og leggja fjóra milljarða króna til ýmissa verkefna til að skapa störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×