Handbolti

Norðmenn héldu hreinu síðustu 10 mínúturnar og lönduðu dýrmætum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristian Björnsen skoraði tvö síðustu mörk leiksins.
Kristian Björnsen skoraði tvö síðustu mörk leiksins. vísir/epa
Norðmenn fara vel af stað á HM í Frakklandi en í kvöld unnu þeir tveggja marka sigur, 20-22, á Pólverjum.

Noregur er því með tvö stig í A-riðli, líkt og Frakkland og Rússland.

Eins og tölurnar gefa til kynna var varnarleikurinn í fyrirrúmi í leiknum í kvöld.

Þrátt fyrir að skora aðeins 20 mörk voru Pólverjar með 61% skotnýtingu. Sautján tapaðir boltar reyndust þeim hins vegar dýrir.

Staðan var jöfn í hálfleik, 10-10, og þegar 10 mínútur voru eftir var enn jafnt, 20-20. Norðmenn skelltu svo í lás í vörninni á lokakaflanum og Kristian Björnsen kláraði leikinn með því að skora tvö síðustu mörkin. Lokatölur 20-22, Noregi í vil.

Espen Lie Hansen skoraði sex mörk í norska liðinu og Björnsen fimm. Michal Daszek skoraði sjö mörk fyrir Pólland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×