Handbolti

Norðmenn fyrstir í undanúrslitin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristian Bjornsen fagnar í dag.
Kristian Bjornsen fagnar í dag. vísir/epa
Norðmenn komust í dag fyrstir liða í undanúrslit á HM 2017 í handbolta þegar liðið vann auðveldan sigur á Ungverjalandi, 31-28. Lokatölur leiksins gefa ekki rétta mynd af leiknum því Noregur var með algjöra yfirburði frá upphafi til enda.

Norska liðið var sjö mörkum yfir í hálfleik, 17-10, og náði mest níu marka forskoti í seinni hálfleik, 29-20. Ungverska liðið, sem lagði Ólympíumeistara Danmerkur í 16 liða úrslitum, klóraði í bakkann undir lokin og lagaði stöðuna.

Espen Lie Hansen var markahæstur Noregs með sex mörk úr tólf skotum en þeir Kent Robin Tönnesen og Sander Sagosen skoruðu báðir fimm mörk. Torbjorn Bergerud varði fjórtán skot í markinu og var með 34 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Noregur komst í raun ekki á HM því liðið tapaði í umspili síðasta sumar en var sent bakdyraleiðina til Frakklands. Nú er liðið búið að fá nokkuð þægilega leið í undanúrslitin en það lagði Makedóníu í 16 liða úrsiltum.

Þetta er annað stórmótið í röð sem Norðmenn komst í undanúrsilt en það gerðu þeir líka á EM í Póllandi á síðasta ári.

Noregur fær annað hvort Króatíu eða Spán í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×