Viðskipti innlent

Norðlenskir fjárfestar kaupa Frumherja

Jón Hákon Hallldórsson skrifar
Einn meginþátturinn í starfsemi Frumherja er skoðun ökutækja.
Einn meginþátturinn í starfsemi Frumherja er skoðun ökutækja. Vísir/GVA
Eignarhaldsfélagið Fergin, sem var í eigu Íslandsbanka, Ásgeirs Baldurs og Orra Hlöðverssonar, hefur undirritað kaupsamning um sölu alls hlutafjár í Frumherja hf. Kaupandi er félag sem heitir SKR1. Það félag er annars vegar í eigu samlagshlutafélagsins Skriðs, sem er félag í rekstri og umsýslu Íslenskra verðbréfa, og hins vegar í eigu Tíberiusar, félags í eigu Andra Gunnarssonar lögmanns, Fannars Ólafssonar, Kristjáns Grétarssonar og Þórðar Kolbeinssonar.

Undir starfsemi Frumherja heyrir ýmis skoðanastarfsemi, svo sem ökutækja, fasteigna, skipa- og rafmagnsskoðanir. Að auki sér Frumherji um framkvæmd ökuprófa, löggildingu mælitækja og fleira.

DV sagði í febrúar síðastliðnum að kaupverðið á Frumherja yrði líklegast um milljarður króna, miðað við þau tilboð sem höfðu borist í félagið. Eigendur Frumherja hefðu greitt sér út 425 milljónir króna í arð með því að lækka hlutafé um tæplega þriðjung skömmu áður en Íslandsbanki setti fyrirtækið formlega í söluferli í byrjun þessa árs.

Íslandsbanki eignaðist áttatíu prósent hlut í Frumherja þegar fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins lauk í janúar 2014. Á sama tíma lögðu þeir Orri Ásgeir og Orri fyrirtækinu til nýtt hlutafé og eignuðust samtals 20 prósent. Frumherji hafði áður verið í eigu eignarhaldsfélags Finns Ingólfssonar, fyrrverandi ráðherra, sem keypti það árið 2007.

Nýir eigendur hafa verið nokkuð áberandi í íslensku viðskiptalífi undanfarið. Andri Gunnarsson og Fannar Ólafsson tengjast félaginu Óskabein sem á 5,89 prósent í Vátryggingafélagi Íslands. Þá voru þeir, ásamt Kristjáni Grétarssyni, í hópi manna sem keyptu Kea-hótelin sumarið 2012.

Íslensk verðbréf var árið 1987 og á sér því hartnær þrjátíu ára sögu. Við stofnun hét fyrirtækið Kaupþing Norðurlands, en árið 2000 var núverandi nafn tekið upp. Starfsmenn fyrirtækisins hafa aðstöðu á Strandgötu á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×