Erlent

Nokkur hundruð komu saman til að mótmæla árásunum í Köln

Atli Ísleifsson skrifar
Árásirnar voru gerðar við aðallestarstöðina í Köln.
Árásirnar voru gerðar við aðallestarstöðina í Köln. Vísir/AFP
Fleiri hundruð manns komu saman í Köln í Þýskalandi í gærkvöld til að mótmæla þeim skipulögðu kynferðisárásum og rán sem beindust gegn konum í borginni á gamlárskvöld.

Margir mótmælendanna kröfðust þess að Angela Merkel Þýskalandskanslari grípi til aðgerða vegna málsins. „Frú Merkel! Hvar ertu? Þetta hræðir okkur!“ stóð á einu mótmælaskiltanna.

Í frétt BBC kemur fram að Merkel hafi fordæmt ódæðisverkin og að gera þyrfti allt til að finna árásarmennina. Sjónarvottar og lögregla segja að árásarmennirnir, sem voru fleiri hundruð talsins, hafi verið af arabískum eða norður-afrískum uppruna.

Stjórnmálaleiðtogar hafa lagt áherslu á að Þjóðverjar tengi ekki ofbeldisölduna við aukinn straum flóttafólks til landsins.

 

Mótmælandi biðlar til Angelu Merkel Þýskalandskanslara.Vísir/AFP
Innanríkisráðherrann Thomas de Maiziere hefur tekið undir slíkt og segir að grunur ætti ekki að beinast sérstaklega að flóttafólki, að minnsta kosti ekki á þessu stigi rannsóknarinnar. „En ef árásarmennirnir voru frá Norður-Afríku, líkt og vísbendingar hafa verið um, þá á það ekki að vera eitthvert tabú eða vera nokkur ástæða til að fela það.“

Fréttir af árásinni hafa skekið Þýskaland síðustu daga, en fleiri hundruð ungra, ölvaðra manna réðust þar á konur í grennd við aðallestarstöð borgarinnar.

Að minnsta kosti níutíu konur hafa tilkynnt um að hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi ungra manna við lestarstöðina á gamlárskvöld. Að minnsta kosti einni var nauðgað og tugir til viðbótar áreittir kynferðislega.

Lögreglustjórinn Wolfgang Albers segir að enginn hafi enn verið handtekinn vegna árásanna. „Við erum enn ekki með neina grunaða og við vitum ekki hverjir brotamennirnir eru. Það eina sem vitum er að lögregla á staðnum hafi sagt að fyrst og fremst hafi verið um unga menn á aldrinum átján til 35 ára af arabískum eða norður-afrískum uppruna að ræða.“ Hann lýsti árásunum sem „nýrri vídd af glæpum“.

Borgarstjóri Kölnarborgar segir að gripið verði til sérstakra ráðstafana þegar kjötkveðjuhátíð borgarinnar fer fram í febrúar þar sem búist er við miklu fjölmenni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×