Innlent

Nokkrir vegir ófærir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skyggni á vegum gæti sums staðar orðið nánst ekkert í dag.
Skyggni á vegum gæti sums staðar orðið nánst ekkert í dag. vísir/vilhelm
Búast má við skafrenningi á vegum í dag vegna veðurs, ekki síst á Norður-og Austurlandi þar sem spað er stórhríð. Skyggni gæti því sums staðar orðið nánst ekkert.

Upp úr hádegi hvessir síðan suðaustanlands og gætu hviður þá farið upp í 35 til 45 metra á sekúndu með tilheyrandi sandfoki á Skeiðarársandi, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Brattabrekka er ófær og sömu sögu er að segja um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði. Þá er ófært úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Djúpavík. Lyngdalsheiði hefur einnig verið lokað en færð á vegum er sem hér segir:

 

Hálka og snjóþekja á vegum á Suðurlandi, og skafrenningur í Þrengslum, á Hellisheiði og Mosfellsheiði. Lyngdalsheiði hefur verið lokað vegna veðurs.

Á Vesturlandi er víðast hálka eða snjóþekja. Brattabrekka er ófær og þar er vonsku veður. Þæfingsfærð er á Holtavörðuheiði og verið að moka. Mjög hvasst er í Staðarsveit.

Hálka og snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum og verið að hreinsa. Þæfingsfærð er á Klettshálsi og mjög hvasst. Steingrímsfjarðarheiði er þungfær en þæfingur á köflum í Djúpinu og einnig á Innstrandavegi. Ófært er á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði, og eins úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Djúpavík.

Það er snjókoma og skafrenningur á Norðurlandi, víða hvasst og sums staðar mjög blint. Þæfingsfærð er á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði.

Þæfingsfærð er yfir Fjöllin en á Austurlandi er víðast snjóþekja eða nokkur hálka. Hálka er einnig með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×