Körfubolti

Njarðvísku þjálfararnir hættu allir með sín lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Örvar Þór Kristjánsson, Teitur Örlygsson og Einar Árni Jóhannsson.
Örvar Þór Kristjánsson, Teitur Örlygsson og Einar Árni Jóhannsson. Vísir/Daníel
Örvar Þór Kristjánsson varð í gær þriðji þjálfarinn frá Njarðvík sem hættir þjálfun síns liðs í Dominos-deild karla í körfubolta. Hann bættist þá í hóp með þeim Einari Árna Jóhannssyni og Teiti Örlygssyni.

Örvar ákvað sjálfur að láta af störfum sem þjálfari meistaraflokks ÍR en hann nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum. Stjórn Körfuknattleiksdeildar ÍR þakkaði Örvari fyrir vel unnin störf í vetur og gott samstarf í frétt á heimasíðu sinni.

Einar Árni Jóhannesson stýrði Njarðvíkurliðinu í síðasta sinn í gær þegar liðið datt út úr undanúrslitunum á móti Grindavík en nokkrum dögum fyrr stjórnaði Teitur Örlygsson Stjörnuliðinu í síðasta sinn í tapleik á móti KR í hinu undanúrslitaeinvíginu.

Einar Árni og Teitur voru báðir búnir að vera lengi með sín lið en Örvar var að klára sitt fyrsta tímabil í Breiðholtinu. ÍR-liðið komst í bikarúrslitin og átti magnaða seinni umferð þar sem Breiðhyltingar voru hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppninni þrátt fyrir að vera í fallsæti um jólin.

„Ég er gríðarlega þakklátur tækifærinu og ÍR þessum frábæra klúbb. Aðstæður eru þannig hjá mér að ég gat ekki haldið áfram með liðið sem er leitt en þessi ákvörðun er líka tekin með hagsmuni ÍR í huga. Þykir afar vænt um klúbbinn og tek hatt minn ofan fyrir stjórn og leikmönnum. Fyrst og fremst þeirri frábæru vinnu sem stjórnin hefur unnt að hendi. Óska ÍR velfarnaðar og kveð stoltur. Kveðja Örvar," segir í yfirlýsingu Örvars inn á heimasíðu ÍR-inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×