Erlent

Níu úr sömu fjölskyldunni á meðal þeirra 17 sem fórust þegar hjólabáturinn sökk

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Vísir/EPA
Á meðal þeirra sautján sem fórust þegar hjólabátur sökk í Bandaríkjunum í gær voru níu úr sömu fjölskyldunni.

Tveir úr fjölskyldunni björguðust en á meðal þeirra var Tia Coleman sem sagði skipstjórann hafa tjáð 31 farþega bátsins að þeir þyrftu ekki að fara í björgunarvesti.

„Ég missti öll börnin mín, ég missti eiginmann minn, ég missti tengdamóður mína, ég missti tengdaföður minn, ég missti mágkonu mína og ég missti frændur mína. Það er í lagi með mig en þetta er virkilega þungbært,“ sagði Coleman við Fox News.

Slysið varð þegar hjólabátnum hvolfdi í kröppum sjó á Table Rock-vatninu á fimmtudag.

Lögreglan í Missouri-ríki Bandaríkjanna segir þá sem fórust í þessa slysinu hafa verið á aldrinum eins árs og til 70 ára.

„Skipstjórinn sagði við okkur: „Ekki hafa áhyggjur af því að grípa björgunarvesti, þið þurfið ekki á þeim að halda.“ Ekkert okkar náði því í björgunarvesti því við hlustuðum á skipstjórann og hann sagði okkur að halda kyrru fyrir,“ sagði Coleman.

Hún sagði að vegna skipana skipstjórans hefði ekki gefist tími til að grípa til björgunarvesta, það hefði verið um seinan. 

„Ég trúi því að það hefði verið hægt að bjarga mörgum þeirra sem fórust,“ sagði Coleman.

Ættingi fjölskyldunnar sem var ekki í bátnum sagði við fjölmiðla vestanhafs að hinn meðlimurinn úr fjölskyldunni sem lifði af hefði verið drengur.

Skipstjórinn var á meðal þeirra sem björguðust en hann er nú á sjúkrahúsi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×