Körfubolti

Níu stiga tap í fyrsta leik í Austurríki

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Haukur í leik með íslenska landsliðinu á Eurobasket í Berlín.
Haukur í leik með íslenska landsliðinu á Eurobasket í Berlín. Vísir/Valli
Íslenska landsliðið í körfuknattleik tapaði fyrsta leik sínum á fjögurra liða æfingarmóti sem fer fram í Austurríki þessa dagana en austurríska liðið leiddi allan leikinn.

Fyrsti mótherjinn á mótinu voru heimamenn í Austurríki og náði austurríska liðið fljótlega forskotinu sem það hélt út leikinn.

Leiddi austurríska liðið með ellefu stigum í hálfleik 39-28 en íslenska liðinu tókst aðeins að klóra í bakkann í þriðja leikhluta og var munurinn átta stig fyrir lokaleikhlutann.

Íslenska liðið var aldrei langt undan en átti erfitt með að vinna upp forskot austurríska liðsins og fór svo að leiknum lauk með sigri Austurríkis 79-70.

Haukur Helgi Pálsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 14 stig en Martin Hermannsson bætti við ellefu stigum og Kristófer Acox tíu stigum.

Næsti leikur liðsins er gegn Slóveníu á morgun en þetta mót er hluti undirbúning liðsins fyrir undankeppni Eurobasket 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×