Enski boltinn

Nítjánda mark Lukaku tryggði Everton sigur á Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku skorar hér sigurmarkið.
Romelu Lukaku skorar hér sigurmarkið. Vísir/Getty
Romelu Lukaku var áfram á skotskónum í kvöld þegar hann tryggði Everton 2-1 sigur á Manchester City í kvöld í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins.

Sigurmark Lukaku, hans tólfta mark í síðustu tólf leikjum Everton, kom tólf mínútum fyrir leikslok og aðeins tveimur mínútum eftir að City-menn höfðu jafnað metin.

Leikur kvöldsins fór fram á Goodison Park en seinni leikur liðanna verður síðan spilaður á Ethiad-leikvanginum, heimavelli Manchester City. Sá leikur fer fram 27. janúar næstkomandi en liðin mætast áður en að kom kemur því framundan er leikur þeirra í ensku úrvalsdeildinni.

Liðin frá Bítlaborginni, Liverpool og Everton, unnu því bæði eins marks sigur í fyrri undanúrslitaviðureignum sínum en Liverpool vann 1-0 útisigur á Stoke í gær.

Everton var búið að koma boltanum tvisvar í mark Manchester City þegar liðið komst yfir í lok fyrri hálfleiksins.

Gareth Barry skoraði skallamark á 37. mínútu eftir sendingu Leighton Baines en var dæmdur rangstæður. Romelu Lukaku sendi boltann líka í markið fjórum mínútum seinna en markið var líka dæmt af vegna rangstæðu.

Markið sem fékk að standa kom síðan á lokamínútu hálfleiksins. Ramiro Funes Mori kom þá boltanum yfir línuna eftir að hann fylgdi eftir skoti Ross Barkley.  Mori var ekki rangstæður en það var hinsvegar Romelu Lukaku sem var nálægt því að trufla markvörðinn.

Þannig var staðan þar til á 76. mínútu þegar Manchester City jafnaði eftir frábæra skyndisókn.

Jesús Navas fékk þá boltann á endanum eftir frábæra stoðsendingu frá Sergio Agüero og Navas kom mörgum á óvart með því að klára af yfirvegun.

Staðan var bara jöfn í tvær mínútur því Romelu Lukaku kom Everton aftur yfir á 78. mínútu með skallamarki eftir sendingu frá Gareth Barry.

Romelu Lukaku meiddist við það að skora þetta mark og þurfti fljótlega að yfirgefa völlinn. Stuðningsmenn Everton liggja nú á bæn að þessi meiðsli hans séu ekki alvarleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×