Erlent

Níræður Mugabe tekur við forystu í Afríkusambandinu

Atli Ísleifsson skrifar
54 Afríkuríki eiga aðild að Afríkusambandinu sem var stofnað árið 2002.
54 Afríkuríki eiga aðild að Afríkusambandinu sem var stofnað árið 2002. Vísir/AP
Leiðtogar Afríkuríkja skipuðu í dag Robert Mugabe, forseta Simbabve, í embætti forseta Afríkusambandsins.

Hinn níræði Mugabe hefur stjórnað landi sínu frá árinu 1980 og tekur við forsetaembættinu í Afríkusambandinu af Mohamed Ould Abdel Aziz, forseta Máritaníu.

54 Afríkuríki eiga aðild að Afríkusambandinu sem var stofnað árið 2002 á grunni Einingarsamtaka Afríku. Markmið er að efla efnahaglegt og pólitískt samstarf á milli Afríkuríkja og að vinna að friði, öryggi og þróun í álfunni.

Tilkynnt var um skipunina á tveggja daga leiðtogafundi sambandsins í höfuðstöðvum þess í Addis Abeba, höfuðborg Eþíópíu. Forsetinn hlaut mikið lófatak fundarmanna þegar hann fordæmdi nýlendustefnu. „Í forsetatíð minni hyggst ég vísvitandi ögra ykkur til að huga að innviðum, virðisauka, landbúnaði og loftslagsbreytingum,“ sagði Mugabe.

Margir hafa gagnrýnt skipun Mugabe, enda fjarri því að vera óumdeildur stjórnmálamaður. „Í sannleika sagt trúi ég ekki öðru en að upphefð hans sé annað en táknræn,“ sagði Piers Pigou, verkefnisstjóri hjá suður-afrískri stofnun sem sérhæfir sig í átakafræðum (International Crisis Group), í samtali við AP. „Skipun hans sendir neikvæð skilaboð um afríska einingu um leiðtoga sem hafa misnotað völd sín.“

Um þrettán milljónir mana búa í Simbabve en efnahagur landsins hefur verið í molum síðastliðin ár og verðbólga himinhá. Mannréttindasamtök hafa mörg gagnrýnt Mugabe og sakað hann um að hafa beitt ofbeldi til að tryggja sér sigur í kosningum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×