Skoðun

Níræður Íslendingur

Sigurjón Arnórsson skrifar
Jón er níræður að aldri. Hann er hávaxinn og beinn í baki, en þó orðinn hrumur af löngu líkamlegu striti. Hann er með blá augu, þétt augnahár og aðlaðandi bros. Á höfði hans er skalli þar sem einu sinn var þykkt ljóst hár. Jón hefur mörg áhugamál, en flugið er í miklu uppáhaldi hjá honum. Þótt líkaminn sé slitinn er Jón sterkur og lífsglaður í anda.

Þrátt fyrir að Jón sé sestur í helgan stein, þá eru mörg viðfangsefnin sem hann þarf að takast á við. Hann getur lítið leyft sér vegna lágs lífeyris, heilsutengd vandamál fara vaxandi og hann þarf að halda sér félagslega virkum, sem er ýmsum vandkvæðum bundið þegar fólk er horfið af vinnumarkaði og heilsan gerir mönnum erfiðara um vik að sinna eigin áhugamálum. Að ekki sé minnst á það að Jón getur ekki lengur ekið eigin bifreið.

Þótt Jón sé heilbrigðari en margir á hans aldri hefur hann ekki þá orku sem hann hafði í æsku. Hann er of gamall til að mega vinna, hann þarf að treysta á fjölskyldu sína og hefur mikið fyrir því að halda í þá hluti sem yngra fólk telur sjálfsagt.

Jón situr í gamla leðurstólnum sínum og les rólega yfir skýrslu um málefni eldri borgara. Þar les hann að Íslendingum 67 ára og eldri muni fjölga úr 36 þúsund í 54 þúsund frá árinu 2013 til ársins 2025. Með þessum útreikningi sem er frá Hagstofu Íslands, þyrfti að öllu óbreyttu að byggja um 4.000 hjúkrunarrými á næstu 25 árum. Á undanförnum fimm árum hefur hjúkrunarrýmum fækkað um 150.

Eftir smá stund leggur Jón skýrsluna frá sér. Hann íhugar málið um stund og segir síðan: „Fólk á okkar aldri er við mismunandi góða heilsu. Það vantar skilning á ástandi þessa fólks. Það eru ekki allir eins heppnir og við að hafa sæmilega heilsu og börn sem hjálpa okkur.“

Þegar Jón er spurður hvað honum finnist um stöðu eldri borgara í Reykjavík brosir hann sínu blíðasta brosi og segir: „Það er mikilvægt að leyfa eldri borgurum að lifa góðu lífi og yngra fólkið má ekki gleyma því að allir verða einhvern tímann gamlir.“




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×