Erlent

Nígería laust við ebólu

Atli Ísleifsson skrifar
Kennari í Nígeríu sýnir nemendum sínum hvernig skuli þvo hendur til að draga úr líkum á ebólusmiti.
Kennari í Nígeríu sýnir nemendum sínum hvernig skuli þvo hendur til að draga úr líkum á ebólusmiti. Vísir/AFP
Engin ný tilfelli ebólusmits hafa komið upp í Nígeríu síðastliðna 42 daga. Tímabilið svarar til tveggja meðgöngutímabila ebólu sem er þrjár vikur. Hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) því lýst landið laust við ebólu.

„Veiran er horfin í þetta skiptið. Faraldurinn í Nígeríu er unninn,“ segir Rui Gama Vaz, talsmaður WHO í höfuðborginni Abuja. „Þetta er eftirtektarverður árangur sem sýnir fram á að mögulegt sé að stöðva ebólu.“

Síðastliðinn föstudag lýsti WHO jafnframt yfir að Senegal væri laust við ebólu.

Mikill ótti greip um sig þegar fyrsta ebólutilfellið kom upp í Nígeríu sem er fjölmennasta land Afríku með 170 milljónir íbúa.

Sérfræðingar hafa hrósað viðbrögðum nígerískra heilbrigðisyfirvalda, kvikum viðbrögðum þeirra og starf þar sem þeir kortlögðu alla þá sem komust í snertingu við smitaða.

Alls hafa tuttugu manns greinst með ebólusmit í Nígeríu og átta þeirra látist. Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að nígerísk heilbrigðisyfirvöld hafi vaktað um 900 manns til að greina merki um smit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×