Fótbolti

Nigel Pearson tekur við gömlu Íslendingaliði í Belgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel Pearson.
Nigel Pearson. Vísir/Getty
Nigel Pearson, fyrrum knattspyrnustjóri Leicester City, hefur fundið sér nýtt lið en það er ekki í Englandi og ekki í efstu deild.

Fyrsta starf Nigel Pearson utan enska boltans verður þjálfarastaðan hjá belgíska b-deildarliðinu Oud-Heverlee Leuven. BBC segir frá.

Oud-Heverlee Leuven er gamalt Íslendingalið en Stefán Gíslason spilaði með liðinu í þrjú tímabil frá 2011/12 til 2013/14 en liðið var þá í efstu deild. Þetta voru síðustu ár Stefáns í atvinnumennsku.

Pearson hefur samt unnið fyrir sömu eigendur áður því King Power International, eigendur Leicester City, eiga einnig þetta belgíska félag.

Nigel Pearson bjargaði Leicester-liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2014-15en Ítalinn Claudio Ranieri fékk svo starfið hans um sumarið og gerði Leicester að enskum meisturum 2016.

Eigendurnir ráku Nigel Pearson sumarið 2015 þrátt fyrir að hann hafi bjargað liðinu frá falli með mögnuðum endaspretti en leiðir þeirra liggja nú aftur saman.

Pearson hefur ekki fengið mikið að gera síðan að hann var rekinn frá Leicester því frá þeim tíma hefur hann aðeins stýrt Derby County í fjórtán leikjum sem voru frá maí til október 2016.

Nigel Pearson tekur við liði Oud-Heverlee Leuven í fjórða sæti í belgísku B-deildinni af átta liðum. Liðið hefur aðeins unnið 2 af fyrstu 6 leikjum sínum á tímabilinu.

Hann tekur við af Dennis van Wijk sem hafði stýrt Oud-Heverlee Leuven frá því í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×