Handbolti

Nielsen gæti spilað sinn fyrsta leik í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kasper Nielsen er tröll að burðum. Hér reynir hann skot að marki Svía á Ólympíuleikunum í London 2012.
Kasper Nielsen er tröll að burðum. Hér reynir hann skot að marki Svía á Ólympíuleikunum í London 2012. Vísir/AFP
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füsche Berlin, vonast til að búið verði að ganga frá öllum lausum endum varðandi félagaskipti danska varnarmannsins Kasper Nielsen fyrir leikinn gegn Bergischer HC í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Íslensku landsliðsmennirnir Arnór Þór Gunnarsson og Björgvin Páll Gústavsson leika með Bergischer.

Nielsen, sem er 39 ára, var fenginn til Füsche Berlin til að fylla skarð Króatans Denis Spoljaric sem er meiddur. Daninn verður með liðinu til loka leiktíðarinnar.

„Við fengum reyndan leikmann, sem getur komið inn og hjálpað okkur án mikils fyrirvara,“ sagði Dagur í samtali við heimasíðu Füsche Berlin.

„Það er mjög erfitt að fá leikmenn á þessum tímapunkti á leiktíðinni. Þegar Kasper Nielsen var nefndur sem möguleiki, var hann strax okkar fyrsti kostur.“

Sex ár eru liðin síðan Nielsen spilaði síðast í þýsku úrvalsdeildinni, en það var með Flensburg sem hann lék með árunum 2008-2010. Hann var einnig í herbúðum Flensburg tímabilið 2001-2002. Nielsen hefur einnig leikið með GOG og Bjerringbro-Silkeborg í heimalandinu.

Þá lék Nielsen lengi með danska landsliðinu, en hann varð Evrópumeistari með liðinu 2008 og 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×