Innlent

Niðurskurður í löggæslu á Vesturlandi

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglumönnum á Vesturlandi hefur fækkað um fimm það sem af er ári og þeir eru nú 28. Niðurskurðurinn verður þrátt fyrir yfirlýsingar innanríkisráðherra um stórauknar fjárheimildir.
Lögreglumönnum á Vesturlandi hefur fækkað um fimm það sem af er ári og þeir eru nú 28. Niðurskurðurinn verður þrátt fyrir yfirlýsingar innanríkisráðherra um stórauknar fjárheimildir. vísir/pjetur
Lögreglan á Vesturlandi hefur þurft að skera niður um fimm lögreglumenn á árinu til að halda sig innan fjárheimilda. Þetta er staðreynd þrátt fyrir að innanríkisráðuneytið segist hafa stóraukið fjárheimildir til löggæslu í landinu.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi og formaður lögreglustjórafélags Íslands, segir að verulegar fjárheimildir vanti til lögreglunnar um land allt. „Stutta útgáfan er þessi að árið 2007 voru lögreglumenn 712 á Íslandi en þeir eru 629 þann 1. febrúar 2016. Þó að þingið hafi verið að auka fjárheimildir þá hefur það ekki dugað. Það vantar enn mikið upp á að við náum að minnsta kosti jafn góðri stöðu og árið 2007, þó að staðan hafi kannski ekki verið góð þá.“

Stöður fimm lögreglumanna hafa losnað í umdæmi Úlfars það sem af er ári og hann hefur ekki getað ráðið í stöðurnar. „Mér ber skylda til þess lögum samkvæmt að halda rekstrinum innan fjárheimilda.“

Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu segir að það hafi verið forgangsmál innanríkisráðherra að efla löggæslu í landinu. Hækkun fjárveitinga frá 2013 nemi tæplega 1,9 milljörðum króna miðað við vísitölu neysluverðs 2016. „Það hefur komið innspýting en það dugar bara ekki til. Það sem hvarf úr löggæslunni hefur ekki verið bætt að fullu og það vantar á annan milljarð króna inn í löggæsluna,“ segir Úlfar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×