Innlent

Niðrandi ummæli Sögu Garðars koma RÚV í bobba

Jakob Bjarnar skrifar
Grínið fór úr böndunum hjá þessum grínistum hringborðsins samkvæmt greinargerð fjölmiðlanefndar.
Grínið fór úr böndunum hjá þessum grínistum hringborðsins samkvæmt greinargerð fjölmiðlanefndar.
Fjölmiðlanefnd birti nýverið úrskurð sem kveður á um að Ríkisútvarpið hafi gerst brotlegt við 26. grein laga um fjölmiðla; brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs. Í greinargerðinni kemur fram að Ríkisútvarpið skuli vera til fyrirmyndar um gæði og vinnubrögð og ummælin sem um ræðir hafi ekkert haft með lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitunnar að gera né upplýsingarétt almennings „enda ekki á nokkurn hátt séð að umfjöllunin tengist almennri þjóðfélagsumræðu.“

Greinargerð um málið er ítarleg og snýst um ummæli sem féllu í útvarpsþættinum Grínistar hringborðsins 14. september 2013. Umsjónarmaður þáttarins var Þorsteinn Guðmundsson en honum til fulltingis í hverjum þætti voru jafnan tveir grínistar. Þá meðreiðarsveina sína kynnir Þorsteinn til sögunnar á Facebooksíðu þáttar síns þann 14. september: „Minni á þáttinn okkar kl. 3. Með mér verður hin stórskemmtilega Saga Garðarsdóttir og Jóhann Ævar, einn höfunda Vaktaþáttanna.“

Hæddur og smánaður í beinni útsendingu

Erindið til Fjölmiðlanefndar hlýtur að teljast alvarlegs eðlis: „Samkvæmt fyrirliggjandi hljóðupptöku var sonur umbjóðenda minna, sem er 14 ára gamall, hæddur og smánaður í beinni útsendingu á þann hátt að ekki veri við unað. Hann var ásamt öðru ólögráða ungmenni sakaður um glæpsamlegt athæfi, þeir kallaðir „aumingjar“, „pizzaface“ og „kúkalabbar“ auk þess sem gert var lítið úr þeim á ýmsa vegu, þ.á.m. ýjað að vangetu þeirra í skóla. Til að kóróna þau ósmekklegu ummæli sem aðilar létu sér um munn fara þá var sonur umbjóðenda minna sérstaklega nafngreindur og þess skilmerkilega getið í hvaða bekk hann væri og í hvaða skóla.“

Gleymdu námsbókum á vettvangi hins meinta glæps

Í greinargerðinni er farið yfir það hvernig það sem um ræðir var fram sett. Annar gesta Þorsteins, sem Vísir hefur heimildir fyrir að hafi verið Saga, sagði svo fjálglega frá því að veski sínu hafi verið stolið af tveimur unglingsdrengjum. Um þetta spunnust nokkrar umræður og upplýsti Saga nafn annars drengsins, „tilgreindi bekk hans og skóla, en upplýsingarnar voru aðgengilegar í námsbókum sem drengurinn hafði gleymt á vettvangi. Í umfjölluninni kom jafnframt fram það sjónarmið að drengirnir hefðu ekki komist lengra en merkja bækur sínar eftir að þáttastjórnandinn spurði gestinn hvort lesa mætti það að drengirnir væru ekki miklir námsmenn.“

Verktaka engin vörn í málinu

Vísir reyndi að fá viðbrögð við úrskurði fjölmiðlanefndar frá yfirstjórn Ríkisútvarpsins en þar er þessa dagana fundað svo stíft að það fólk er ekki til viðtals. Fram kemur í greinargerðinni að útvarpsstjóri harmi ummælin en erfitt sé að bera ábyrgð á ummælum gesta. Fjölmiðlanefnd tekur ekki mark á þeim mótbárum, segir að Ríkisútvarpið geti ekki skýlt sér á bak við það eða að um verktaka sé að ræða; í þessu tilfelli hafi verið um að ræða aðila sem fékk greitt fyrir þátttöku sína í þættinum.

Vísir hafði samband við Þorstein Guðmundsson en í áliti fjölmiðlanefndar er vísað til ábyrgðar hans... „um dagskrárlið var að ræða undir stjórn þáttastjórnanda þar sem gestir fengu greiðslu fyrir þátttöku sína. Þá hafi þáttastjórnandi með spurningum sínum óskað frekari upplýsinga um atvik og framvindu málsins og þannig ekki reynt að gæta að hagsmunum drengsins sem um var rætt.“

Hefði viljað bera hönd yfir höfuð sér

Þorsteini þykir það skjóta skökku við að hann hafi ekki fengið að útskýra mál sitt fyrir fjölmiðlanefndinni. Hann segist lítið geta tjáð sig um þetta mál við Vísi, það sé honum nánast óviðkomandi. „Ég hef ekki fengið tækifæri til að halda uppi vörnum fyrir sjálfan mig. Að ég fái ekki tækifæri til að útskýra eða svara eða koma að þessu máli á nokkurn hátt, mér finnst það sérkennilegt,“ segir Þorsteinn sem hefur lítinn húmor fyrir þessu máli.

„Þetta er hið ótrúlegasta mál. Viðmælandi minn í þættinum á algerlega þessa sögu og þessa frásögn sem um er fjallað. Hann tók fram að hann væri að tala um viðkomandi undir öðru nafni en því rétta. Ég hafði ekki hugmynd um að hér væri verið að fjalla um neitt viðkvæmt, heldur væri um ýkjusögu að ræða eins og oft er í gamanþáttum. Ég lít ekki svo á að ég hafi gert neitt rangt í þessu máli. Frétt ef einhver telur svo vera. Ég gerði ekkert rangt sem þáttastjórnandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×