Handbolti

Nice steinlá í seinni leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arna Sif skoraði þrjú mörk gegn Metz í kvöld.
Arna Sif skoraði þrjú mörk gegn Metz í kvöld. vísir
Íslendingaliðið Nice féll í kvöld úr leik í undanúrslitum frönsku 1. deildarinnar í handbolta eftir átta marka tap, 28-20, fyrir Metz á útivelli.

Landsliðskonurnar Arna Sif Pálsdóttir og Karen Knútsdóttir leika með Nice sem gerði 21-21 jafntefli við Metz í fyrri leiknum á heimavelli.

Arna Sif skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum í leiknum í kvöld en miðið var ekki jafn vel stillt hjá Karenu sem skoraði tvö mörk úr átta skotum. Þær skoruðu samtals fjögur mörk hvor í einvíginu.

Metz var mun sterkari aðilinn í leik kvöldsins og leiddi allan tímann. Staðan í hálfleik var 15-11, Metz í vil. Heimakonur skoruðu svo fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik, náðu sex marka forystu (17-11) og þá var björninn unninn.

Metz náði mest 10 marka forskoti, 28-18, en á endanum munaði átta mörkum á liðunum, 28-20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×