Sport

NFL-leikmanni refsað fyrir að biðja inni á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Husain Abdullah.
Husain Abdullah. Vísir/Getty
Músliminn Husain Abdullah fagnaði snertimarki sínu með refsiverðum hætti þegar Kansas City Chiefs vann 41-14 stórsigur á New England Patriots í ameríska fótboltanum í nótt.

Husain Abdullah var þá refsað fyrir að leggjast á hnén og biðja eftir að hann skoraði snertimark og kom sínu liði í 41-7 í Mánudagsleiknum í NFL-deildinni.

Husain Abdullah stal þá boltanum eftir misheppnaða sendingu leikstjórnandans Tom Brady og hljóp síðan alla leið upp völlinn og skoraði snertimark.

Abdullah nýtti tækifærið og hyllti Allah eftir komuna í markið en hann lagði þá og hnén og fór með ennið að grasinu.  Dómari leiksins var ekki sáttur við trúarjátningu Abdullah og henti gula flagginu. Abdullah fékk í kjölfarið 15 metra refsingu.

Bandarískir fjölmiðlamenn voru fljótir að benda á það að leikmenn hafa ekki fengið neina refsingu fyrir að fagna marki með því að reisa hendurnar í átt til skaparans.

Það er því hætt við því að NFL-dómarinn hafi opnað ormagryfju þegar kemur að því hvernig menn taka á ólíkum trúarbrögðum í NFL-deildinni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×