Sport

NFL: Súper fyrri hálfleikur hjá Súperman og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cam Newton fagnar sigri í kvöld.
Cam Newton fagnar sigri í kvöld. Vísir/Getty
Cam Newton og félagar í Carolina Panthers eru komnir í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar í úrslitakeppni ameríska fótboltans eftir 31-24 sigur á Seattle Seahawks í fyrri leik dagsins.

Mögnuð byrjun og stórkostlegur fyrri hálfleik gerði nánast út um leikinn en Carolina Panthers komst í 14-0 eftir rétt rúmar þrjár mínútur og var 31-0 yfir í hálfleik.

Liðsmenn Seattle Seahawks, sem höfðu komist í Súper Bowl undanfarin tvö ár, gáfust ekki upp og komu sér aftur inn í leikinn en það nægði þeim ekki að vinna seinni hálfleikinn 24-0.

Carolina Panthers mætir Arizona Cardinals í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar um næstu helgi en í boði er sæti í Súper Bowl 2016.

Cam Newton, leikstjórnandi Carolina Panthers, fékk góða hjálp í dag og þurfti ekki að skila einhverri súpermans frammistöðu eins og hann er nú þekktur fyrir.

Hlauparinn Jonathan Stewart kom til baka eftir meiðsli og skoraði tvö snertimörk og þá var Greg Olsen var með eitt.

Vörn liðsins var líka mögnuð og þá sérstaklega í fyrir hálfleiknum þar stjarna varnarlínu Panthers-liðsins, Luke Kuechly, stal meðal annars boltanum og hljóp með hann í markið.

Russell Wilson kastaði boltanum tvisvar frá sér í fyrri hálfleiknum en átti síðan þrjár snertimarkssendingar í seinni hálfleiknum, tvær á Jermaine Kearse og eina á Tyler Lockett.

Leikmenn Seattle Seahawks hafa oft boðið upp á ótrúlegar endurkomur og sigri þegar öll sund virðast lokuð en það kom ekkert kraftaverk í dag. Liðið sem hefur farið alla leið undanfarin tvö ár og var næstum því búið að vinna annað árið í röð í fyrra er því komið í sumarfrí.

Þetta hefur verið magnað tímabil hjá liði Carolina Panthers. Liðið er með besta leikmann deildarinnar í Cam Newton og þegar vörn og aðrir leikmenn eru í formi eins og í kvöld þá er erfitt að veðja á móti þeim í úrslitakeppninni.

Seinni leikur kvöldsins er á milli Denver Broncos og Pittsburgh Steelers og er hann í beinni á Stöð 2 Sport. Sigurvegarinn úr þeim leik mætir New England Patriots í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar um næstu helgi.

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×