Skoðun

NFHB – „Gefið þeim bara köku“

Ingunn Bylgja Einarsdóttir skrifar
Grein þessi er hluti af greinaskriftaátaki Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS), til þess að vekja athygli á undirfjármögnun íslenskra háskóla.



Það var á haustmánuðum 2013 að ég keyrði nokkuð glaðbeitt en kvíðin frá Egilsstöðum og vestur á Bifröst. Ég var að verða 34 ára og var að hefja nám við Háskólagátt Bifrastar sem eftir útskrift veitti mér aðgang að því háskólanámi sem mig langaði í. Fram að þessu hafði ég verið að eignast börn, vinna verkamannavinnu og þörfin fyrir að mennta mig var orðin öllu öðru yfirsterkari. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna höfðu staðið fram fyrir því eftir fjármálahrunið að menntakerfið stóð á hengiflugi þar sem enginn var aurinn til en með einhverjum ráðum og dáðum lifðu allir mennta- og háskólar af hörmungarnar.  Þáverandi menntamálaráðherra talaði fyrir því að breyta hluta námslána í styrk að loknu námi þrátt fyrir að þjóðarbúið væri á vonarvöl, en þó vorum við með ráðherra sem skildi hversu hagræn fjárfesting í menntun þegnanna er. Ég man ekki til þess að háskólar á borð við Bifröst eða Hólar hafi verið litnir hornauga og ekki kom til tals að loka þeim eða sameina með þeim formerkjum að ekki væri til nægur peningur eða þeir stæðust ekki akademískar kröfur, eins og við höfum orðið vitni að undanfarin misseri.

Til þess að fá að stunda nám við Háskólagáttina þurfti ég að vera búin að ljúka tilteknum einingum við menntaskóla, sem ég hafði gert meðan ég var í fæðingarorlofi með drengina mína, þá 27 ára og 29 ára. Það var í þá tíð sem öllum stóð menntaskólinn opinn og gilti einu hvort um 17 ára ungling var að ræða eða sextuga konu. Ég var svo heppin að vera fyrr en núverandi menntamálaráðherra á ferðinni og þurfti ekki að finnast ég vera annars flokks borgari sökum aldurs þar sem aldurstakmörk hafa verið sett á nemendur í menntaskólum og gerir þeim sem hafa horfið á braut frá bóknámi erfiðara fyrir að ljúka stúdentsprófi eða ná lágmarkseiningum fyrir frumgreinanám í háskólum. Menntamálaráðherra ætlaði nefnilega að hækka fjárframlög á hvern yngri nemanda á kostnað þeirra eldri. Þeirra sem hurfu frá námi og langaði að láta drauma sína rætast og mennta sig seinna. Sumir nefnilega blómstra seint, eins og ég til dæmis. Þetta er eitt af mörgum dæmum þess hvernig í þessari stjórnartíð fólki hefur verið mismunað þegar kemur að menntun og virðist ekki vera skilningur fyrir því að fólk á öllum aldri, óháð búsetu og efnahag vilji fá að njóta menntunar. Hún er grunnur þess að fólk fái að njóta þeirra samfélagslegu gæða sem í boði eru, hvort heldur sem þau eru félags- eða efnahagsleg og bjóða þegnunum upp á að vera virkir þátttakendur í því samfélagi sem þeir búa.

Ég lauk Háskólagáttinni með ágætum og hóf í kjölfarið vegferð mína að BA námi í Heimspeki, Hagfræði og Stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Þar sem ég er bundin átthagafjötrum á Egilsstöðum kom ekki annað til greina en að stunda fjarnám. Það er ákveðinn kostnaður sem fylgir því að vera í fjarnámi. Það þarf að sækja vinnuhelgar tvisvar á misseri þar sem nemendur fá tækifæri til þess að hitta kennara sína og samnemendur, taka þátt í tímum og vinna krefjandi verkefni. Ég hef ætíð mætt síðan á haustönn 2013 fyrir utan eitt skipti og hef því lagt út fyrir olíu, flugferðum, bílaleigubílum, hóteli og mat fyrir nokkur hundruð þúsund þar sem þessar helgar skipta mig miklu máli. Lengi vel fékkst ferðalán hjá Lánasjóðnum hvert ár en núverandi menntamálaráðherra ásamt LÍN hefur fellt það niður að hluta og nú fæst einvörðungu ferðalán einu sinni á hverju námstigi. Með því er verið að höggva í knérunn fjarnema á landsbyggðinni og í raun verið að mismuna þeim vegna búsetu. Ég velti fyrir mér sem nemi hvort þetta sé hluti af einhverri aðgerðaráætlun sem miðar að því að útrýma nemendum í fjarnámi á landsbyggðinni. Ég velti líka fyrir mér hvernig nemum á námslánum er ætlað að lifa töluvert undir viðmiðunarmörkum framfærslu og ég óska hér með eftir að komast í samband við þá sem vita leyndarmálið. Með fyrirfram þökk.

Ég átta mig líka illa á þessari orðræðu um „skandinavíska módelið“ sem gjarnan er haldið á lofti. Ég veit ekki til þess að téð módel hafi nokkuð náð landi hér nema síður sé. Kannski er Sænski sendiboðinn sem átti að ljóstra upp helstu leyndarmálum þess að reka menntakerfi sem gagnast öllum þegnum, villtur á árabát í Barentshafinu. Hann allavega kom aldrei hingað. Ísland ver minnstum fjármunum á hvern nemenda á háskólastigi af OECD löndunum og ríflega helmingi minna en Noregur. Nú gæti einhver sagt að það vantaði meiri fjármuni. Já ókei, ég get verið sammála því, en þegar við búum við ríkisstjórn sem neitar að skattleggja milljarða útgerðarfélög sem nýtir auðlindir þjóðarinnar, girðir ekki fyrir glufur í skattalögum sem gerir það að verkum að stórfyrirtæki komast upp með að nota þunna eiginfjármögnun til þess að komast hjá því að greiða tekjuskatt og talar leynt og ljóst fyrir skattkerfi sem þjónar hinum ríku, þá verður ekki til fjármagn.

Menntun er arðbær. Hún eykur efnahagslega velferð. Við nemar búum við kerfi þar sem skólarnir okkar eru sveltir út í horn og lánakerfið er ekki til þess fallið að fólk geti lifað mannsæmandi lífi á meðan á námi stendur. Aukin heldur vofir yfir okkur snarfurðulegt frumvarp sem gerir ríka endurgreiðslukröfur á okkur og mun gera það að verkum að fólk hættir að velja nám eftir áhuga og fer að velta fyrir sér hvað gefur mestan aurinn. Við skulum ekkert tala í kringum þetta, en hvað ætlar samfélag að gera sem hefur enga kennara eða hjúkrunarfræðinga? Ég spyr því við vitum öll að það eru ekki störf sem skila þér nýjum Landkrúser og fínum sumarbústað í Kjós fyrir fimmtugt. Hvað þá að greiða til baka nokkrar milljónir fyrir 67 ára aldur. Nemar eru ekki að fara að verðlauna samfélagið og ríkið sérstaklega fyrir meðferðina með því að demba sér út á vinnumarkaðinn eftir nám og taka þátt í samfélaginu, fullir þakklætis. Æ fleiri kjósa að skoða möguleika sína utan landsteinanna með von um betra framhaldsnám, betri atvinnumöguleika með betri tekjum. Er það sem ráðmenn vilja? Því ég sé ekki hvernig það kemur sér vel fyrir samfélagið og það er ekki stefna sem við ættum að sætta okkur við.

Mér er sama þótt sumir ráðherrar kunni að baka fyrir afmælisveislur barna sinna eða hversu liðtækir þeir eru í garðinum. Ég hef helstan áhuga á því hvernig þeir ætla að búa nemum þessa lands upp á bestu mögulegu menntun sem er um leið samkeppnishæf á heimsvísu. Einnig hef ég áhuga á að fá skaplega framfærslu svo við þurfum ekki að éta úr nefinu á okkur í lok hvers misseri og komi ekki svo hungruð og tjónuð undan námi að framtíðarsýnin beinist að búsetu í öðrum löndum sem bjóða uppá betri störf og laun.

Við hvetjum alla til þess að skrifa undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að setja menntamál í forgang. #háskólaríhættu #FundOurFuture


Tengdar fréttir

LHÍ - "Feitur þeytingur“

Grein þessi er hluti af greinaskriftaátaki Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS), til þess að vekja athygli á undirfjármögnun íslenskra háskóla.

SFHR - „Fjárfestum í menntun“

Grein þessi er hluti af greinaskriftaátaki Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS), til þess að vekja athygli á undirfjármögnun íslenskra háskóla.

SHÍ – „Sex á móti ellefu“

Grein þessi er hluti af greinaskriftaátaki Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS), til þess að vekja athygli á undirfjármögnun íslenskra háskóla.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×