Innlent

Neytendasamtökin vara við svikum á leigumarkaði

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Neytendasamtökin vara við svikum á leigumarkaði.
Neytendasamtökin vara við svikum á leigumarkaði.
Á vef Neytendasamtakanna má sjá ítarlegar ráðleggingar hvernig leigjendur eigi að komast hjá því að vera sviknir á leigumarkaðinum. Þar er fólki, sem hyggst leigja íbúið, ráðlagt að ganga í fyrstu úr skugga um að sá sem það stundar viðskipti eigi íbúðina í raun. „Borið hefur á því að aðilar þykjast hreinlega eiga íbúðir og auglýsi þær sem sínar, án þess að eiga nokkuð tilkall til þeirra,“ segir í umfjöllun samtakanna.

Er íbúðin í raun til?

Í umfjölluninni eru leigjendur hvattir til þess að leigja ekki íbúðir sem þeir hafi ekki séð sjálfir. Færst hafi í aukana að fólk leigi íbúðir í gegnum netið og láti það eingöngu duga að skoða myndir af íbúðinni. „Í mörgum tilvika eru leigjendum sendar ljósmyndir af íbúðum áður en þeir greiða leigugreiðslur til leigusala. Þessar ljósmyndir geta oftar en ekki komið upp um svik þar sem þær eru stundum þess eðlis að engar líkur séu á að umrædd íbúð sé á Íslandi. Þetta má til dæmis leiða af hönnun íbúðarinnar og e.t.v. staðsetningu hennar miðað við ljósmyndir þar sem sést út um glugga o.fl. Það er einnig mikilvægt að fá alltaf nákvæmt heimilisfang íbúðarinnar og geta þannig athugað hvort íbúðin sé yfir höfuð til og í íbúðarhæfu ástandi. Borið hefur á því að leigjendur hafi verið að greiða leigu fyrir íbúðir sem eru enn á byggingarstigi og í sumum tilvikum hefur einungis byggingargrunnur verið til staðar.“

Auglýsingar sem eru of góðar

Í umfjöllun samtakanna er einnig fjallað um auglýsingar sem séu of góðar til að vera sannar. „Ef auglýst er t.d. 130 fermetra íbúð á 100.000 kr., þá er líklegt að auglýsingin sé einfaldlega of góð til að vera sönn.“

Einnig er fjallað um erlendan mann sem sendi frá sér falskar auglýsingar:

„Í einu tilviki hafði erlendur maður auglýst íbúð með þeim hætti og sagðist vera orðinn of aldraður til þess að geta hagnýtt sér íbúð sína á Íslandi. Þess vegna þyrfti hann að leigja hana og vildi hann ekki leigja hana of hátt í von um að fá góða leigjendur. Þegar málið var skoðað betur kom í ljós að umræddur aðili var svikari og hafi hann auglýst sömu íbúðina á ótal vefsíðum víðsvegar um heiminn. Þannig hafði hann einungis breytt ,,Íslandi“ í eitthvað annað land eftir hentisemi hverju sinni. Ljósmyndir af íbúðinni gáfu einnig tilefni til þess að efast um sannleiksgildi auglýsingarinnar.“

Samtökin hvetja leigjendur einnig til þess að slá ákveðnum setningum úr auglýsingum inn í leitarvélar.

„Oft er hægt að athuga hvort um svik sé að ræða með því að taka heilar setningar og setja þær í leitarvélar á netinu. Þeir sem stunda svik með þessum hætti eru nefnilega yfirleitt með fleiri járn í eldinum en bara eitt og nota sömu auglýsingarnar oft og mörgum sinnum. Á veraldarvefnum eru ótal mörg svæði þar sem leigjendur, sem hafa verið sviknir, vara við slíkum aðilum og birta þar bréf eða auglýsingar í heild sinni – öðrum sem víti til varnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×