Fótbolti

Neymar sér fram á nýjan samning við Barcelona

Anton Ingi Leifsson skrifar
Neymar hefur verið frábær á tímabilinu.
Neymar hefur verið frábær á tímabilinu. vísir/getty

Neymar, brasilíski snillingurinn í liði Barcelona, segir að hann vilji binda enda á sögusagnir um að hann sé á leið burt frá Barcelona með nýjum samningi. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Neymar.

Hann hefur verið sagður ósáttur með skattamálin á Spáni og einhverjir fjölmiðlar gengu svo langt að segja að hann vildi yfirgefa Spán vegna þessara mála og Manchester United var sagt áhugasamt um kappann, en Neymar segir að hann sé ekki á förum.

„Ég á ennþá nokkur ár eftir af samningnum mínum og faðir minn hefur rætt varðandi mína framtíð. Það er rétt að hann sagði að skatturinn væri vandamál, en við erum að ræða það allt. Ég er enn með samning og er að sjálfsögðu áhugasamur um að skrifa undir nýjan samning," sagði Neymar.

Neymar hefur verið frábær á tímabilinu og stigið rækilega upp í fjarveru Lionel Messi sem hefur verið meiddur. Hann hefur skorað sextán mörk í fjarveru Messi og þar af fjórtán í deildinni.

Lionel Messi skoraði í gær sitt fyrsta mark síðan í lok september og viðurkennir Neymar að hann hafi leitað að Messi undir lokin svo hann gæti komið sér á blað á nýjan leik.

„Það er rétt að í lokin leitaði ég að Messi svo hann gæti skorað. Utan vallar hjálpar hann okkur mikið. Ég er ánægður þegar Suarez og Messi skora og þeir eru það þegar ég skora."

„Ég er mjög ánægður með allt sem er að gerast á þessum tímapunkti. Ég vil hjálpa félögum mínum að skora mörk og búa til mörk," sagði Neymar að lokum.

Barcelona er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar, en þeir eru efstir með 33 stig. Atletico Madrid er í öðru sætinu með 29 stig og Real í því þriðja með 24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×