Fótbolti

Neymar: Af hverju má ég ekki djamma?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar skemmti sér m.a. með sjálfum Michael Jordan í sumar.
Neymar skemmti sér m.a. með sjálfum Michael Jordan í sumar. vísir/getty
Neymar, leikmaður Barcelona og brasilíska landsliðsins, lætur gagnrýnisraddir um lífstíl sinn sem vind um eyru þjóta.

Neymar spilaði ekki með Brasilíu í Copa América í sumar en fór sjálfur til Bandaríkjanna þar sem hann var duglegur að skemmta sér.

Neymar skammast sín ekkert fyrir að djamma og segir að honum sé frjálst að gera það sem hann langar til utan vallar.

„Af hverju má ég ekki fara út á lífið og skemmta mér?“ spurði brasilíska stórstjarnan blaðamenn.

„Það verður að dæma mig út frá því sem ég geri inni á vellinum. Allt annað er hluti af mínu einkalífi. Það truflar mig ekkert þegar fólk talar um agamál innan vallar, eins og gul og rauð spjöld, en ég á mitt einkalíf. Ég er 24 ára gamall.

„Mér finnst gaman að skemmta mér með vinum mínum og ég nýt þess að vera með fjölskyldunni. Af hverju má ég ekki djamma? Ég get það og ætla að halda því áfram. Ef ég skila mínu inni á vellinum sé ég ekki hvert vandamálið er.“

Neymar er nú með brasilíska landsliðinu sem undirbýr sig af kappi fyrir Ólympíuleikana í Ríó.

Brassar eru með Suður-Afríku, Írak og Danmörku í A-riðli. Fyrsti leikur Brasilíu er gegn Suður-Afríku 4. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×