Fótbolti

Neymar: Dunga getur komið okkur aftur á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar var gerður að fyrirliða brasilíska landsliðsins eftir að Dunga tók við liðinu.
Neymar var gerður að fyrirliða brasilíska landsliðsins eftir að Dunga tók við liðinu. vísir/getty
Neymar, fyrirliði brasilíska landsliðsins, segir að Dunga geti komið Brasilíu upp í hæstu hæðir á nýjan leik.

Dunga tók öðru sinni við þjálfun brasilíska landsliðsins eftir HM 2014 en liðið hefur unnið alla átta leikina undir hans stjórn með markatölunni 18-3.

Dunga gerði Neymar að fyrirliða og það virðist hafa gert sóknarmanninum gott því hann hefur gert átta mörk í þessum átta sigurleikjum Brasilíu.

„Það er alltaf nóg af hæfileikaríkum leikmönnum í Brasilíu og við erum með frábært lið sem getur komist aftur í fremstu röð,“ sagði Neymar en hann verður í eldlínunni í Suður-Ameríkukeppninni í Chile sem hefst 11. júní þar sem Brasilía er með Kólumbíu, Perú og Venesúela í riðli.

„Ef við höldum áfram að æfa vel, stöndum saman og förum eftir því sem þjálfarinn segir getum við komist á toppinn á nýjan leik,“ bætti Neymar við en hann hefur átt frábært tímabil með Barcelona.

Börsungar tryggðu sér Spánarmeistaratitilinn um síðustu helgi og eiga góða möguleika á að vinna þrennuna svokölluðu en liðið er komið í úrslitaleik bikarkeppninnar og Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×