Innlent

Neyðarstigi lýst yfir fyrir norðan - 12 þúsund kindur fastar upp á fjöllum

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti í kvöld yfir neyðarstigi í Þingeyjarsýslum vegna óveðursins sem gekk yfir landið í gær. Talið er að 10 til 12 þúsund kindur séu fastar upp á fjöllum vegna fannfergis. Hættustigin hjá Almannavarnardeild eru þrjú, það er að segja óvissu-, hættu- og neyðarstig.

Nánar má lesa um þau hér.

Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri hjá Almannavarnadeild, segir að stórhluti af Þingeyjarsýslu sé enn rafmagnslaus. Nú séu Landsnet og RARIK, sem eiga spennuvirkjanirnar, að vinna í því að koma þeim í lag, ásamt starfsmönnum annarra orkufyrirtækja. Talið er að hátt í 60 rafmagnsstaurar séu ónýtir. „Ég veit ekki nákvæmlega tímarammann sem þeir eru að vinna eftir, en það gætu verið einn til tveir daga þar til þetta kemst í lag."

En það er ekki rafmagnsleysið sem Almannavarnadeild er endilega að horfa á. Heldur eru það kindurnar sem eru fastar upp á fjöllum sem eru á bilinu 10 til 12 þúsund.

„Þegar neyðarstigi hefur verið lýst yfir er auðveldara að kalla til björgunarsveitarmanna frá svæðunum í kring. Núna snýst þetta um að komast upp á fjöll til að koma kindunum í hús. Menn eru búnir að vera vinna í því á fullu í allan dag að finna kindur. Sumar hafa drepist náttúrulega, en megnið af þeim sem eru á lífi eru það hraktar að það þarf að keyra þeim niður. Við þurfum að koma upp þotum, sem hægt er að festa í vélsleða eða bíla, og snjóbílum."

Lögreglustjórinn á Húsavík er nú að funda með sínu fólki í umdæminu og skipuleggja aðgerðir sem hefjast strax í fyrramálið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×