Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Bagdad eftir að mótmælendur yfirtóku þing landsins

Heimir Már Pétursson skrifar
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Bagdad höfuðborg Íraks eftir að þúsundir Shía múslima réðust inn í þinghús landsins til að mótmæla spillingu stjórnvalda og krefjast umbóta. Leiðtogi þeirra boðar byltingu verði ekki orðið við kröfum um um breytingar á stjórn landsins.

Meirihluti íbúa Íraks er shía múslimar og fara þeir með völdin í landinu en Saddam Hussein fyrrverandi einræðisherra landsins var sunni múslimi. Miklar deilur hafa verið milli ólíkra flokka shía múslima undanfarið vegna skipan ráðherra í ríkisstjórn landsins. Í dag brutust þúsundir mótmælenda sem styðja erkiklerkinn Moqtada Al Sadr sér leið inn í þinghús landsins til að krefjast umbóta. Þeir vilja að ráðherrastólar verði skipaðir óháðum embættismönnum.

Þá hópuðust mótmælendur að veggjum græna svæðisins svo kallaða þar sem sendiráð Bandaríkjanna og fleiri ríkja eru ásamt stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Starfsmenn þessara stofnana hafa lokað að sér í byggingunum. Einhverjir mótmælendur komust inn á græna svæðið í gær og skutu öryggisverðir sendiráðs Bandaríkjanna táragasi á mannfjöldann til að koma í veg fyrir að fleiri kæmu inn á svæðið.

Öflugir flokkar shía múslima hafa neitað að láta undan kröfum og fjölmennum mótmælum undanfarna daga um breytingar á ríkisstjórn landsins. Þegar þegar ekki náðist samkomulag um breytingar milli flokka á þinginu í dag ruddist mikill fjöldi fólks inn í þinghús landsins og yfirtók það.

Moqtada Al Sadr, sem hefur ekki opinberlega hvatt til fjöldamótmæla,  ávarpaði mótmælendur í þinghúsinu og sagði þá vel staðsetta þar þangað til spillt stjórnvöld létu undan kröfum þeirra.

„Ég stend með alþýðunni hér í dag, engum öðrum. Ég sniðgeng alla stjórnmálamenn aðra en þá sem styðja raunverulegar umbætur. Það geri ég af fullri einlægni og heiðarleika og bíð uppreisnar almennings og byltingu hans til að stöðva framgang spillingarinnar í landinu,“ sagði klerkurinn í ávarpi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×