Innlent

Neyðaraðstoð Íslendinga í Gambíu

BBI skrifar
Starfsfólk Rauða krossins mælir vannæringu hjá ungu barni.
Starfsfólk Rauða krossins mælir vannæringu hjá ungu barni.
Rauði krossinn á Íslandi hefur nú í júní dreifingu á matvælum og útsæði til þeirra 50.000 manna sem verst þjást af matarskorti í Gambíu, einu fátækasta ríki heims. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu í kjölfar meiriháttar uppskerubrests.

Uppskerubrestur og matvælaskortur í líkingu við ástandið nú hefur ekki verið í Gambíu í um 15 ár. Síðasta hrísgrjónauppskera, aðalfæða landsmanna, hrundi um nær 80% og aðaltekjulindin, jarðhneturækt, um nær 70%.

Smábörn eru í mestri hættu á að skaðast vegna matarskortsins og því er lögð áhersla á að hjálpa fjölskyldum með börn yngri en fimm ára og mæðrum sem eru með börn sín á brjósti. Gambía er minnsta land á meginlandi Afríku og tilheyrir svokölluðu Sahel svæði sunnan Sahara eyðimerkurinnar þar sem matarskortur ógnar lífi milljóna manna.

Dreifing á útsæði og matvælum til þeirra rúmlega átta þúsund fjölskyldna sem mest þurfa á hjálp að halda hefst um miðjan júní. Miklu skiptir að vinna hratt til að fólk eigi að borða og möguleika á að planta útsæðinu án tafar til að tryggja sér uppskeru í haust. Útsæði eru kartöflur sem eru tilbúnar til niðursetningar.

Hlér að störfum í síðustu viku.
Sameinuðu Þjóðirnar segja að um 430.000 manns, þar af 74.000 börn undir fimm ára þjáist vegna mikils matvælaskorts í Gambíu. Fjöldi fólks á hvorki mat né útsæði til að planta í akra sína. Börn eru tekin úr skóla og send út að leita að mat, hvar sem eitthvað ætilegt er að finna.

Rauði krossinn á Íslandi hefur átt farsæl samskipti við Rauða krossinn í Gambíu síðastliðin 20 ár og hafa meðal annars fjölmörg íslensk ungmenni starfað þar við hjálparstarf. Gambía er minnsta landið á meginlandi Afríku, 11.300 ferkílómetrar að stærð og með 1,8 milljónir íbúa. Um 75% þjóðarinnar hafa lífsviðurværi sitt af landbúnaði. Gambía er eitt af fátækustu ríkjum heims og er í 168 sæti á lífskjaralista Sameinuðu Þjóðanna. Ísland er í 14. sæti á sama lista.

Rauði krossinn á Íslandi leiðir starf Alþjóða Rauða krossins í Gambíu. Hlér Guðjónsson, sendifulltrúi, hefur verið í landinu síðastliðnar þrjár vikur og unnið með Gambíska Rauða krossinum að þarfagreiningu og aðgerðaáætlun. Nú í vikunni tók Birna Halldórsdóttir, sendifulltrúi, við af honum og mun hún stýra neyðaraðstoð Íslands fram á haustið og sjá til þess að hún komist til skila.

Rauði krossinn á Íslandi gerir ráð fyrir að verja alls 40 milljónum úr hjálparsjóði til neyðaraðstoðarinnar á næstu sjö mánuðum. Almenningur er hvattur til að leggja aðstoðinni lið. Það má gera á raudikrossinn.is eða með því að hringja í söfnunarsímann 904 1500 og gefa þannig 1500 krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×