Enski boltinn

Newcastle sló meistarana úr leik á Etihad | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Moussa Sissoko fagnar marki sínu í kvöld.
Moussa Sissoko fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/AFP
Manchester City mátti sætta sig við að falla úr leik í enska deildabikarnum í kvöld eftir 2-0 tap gegn Newcastle á heimavelli sínum. City vann þessa keppni í fyrra en Newcastle er nú komið áfram í 8-liða úrslitin í fyrsta sinn undir stjórn Alan Pardew.

Pardew hefur verið afar umdeildur í starfi í haust en virðist hafa náð að snúa gengi liðsins við á síðustu vikum. Newcastle vann ekki leik í fyrstu sex umferðum ensku úrvalsdeildarinnar en hefur nú unnið þrjá í röð í öllum keppnum.

Táningurinn Rolando Aarons kom gestunum yfir strax á sjöttu mínútu með góðu skoti en bæði lið fengu færi til að skora í fyrri hálfleik.

Það var svo Moussa Sissoko sem innsiglaði sigurinn á 75. mínútu leiksins og þar með sæti Newcastle í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Southampton er komið áfram eftir 3-2 sigur á Stoke á útivelli. Gestnirnir þurftu þó að hafa fyrir hlutunum en miklu munaði um að heimamenn misstu Peter Crouch af velli með rautt spjald á 73. mínútu.

Graziano Pelle kom Southampton yfir á sjöttu mínútu og Shane Long bætti öðru marki við á 30. mínútu. Heimamenn komu þó af krafti inn í síðari hálfleikinn og jöfnuðu metin með mörkum Steven N'Zonzi og Mame Biram Diouf.

Það var svo Pelle sem skoraði sigurmark Southampton skömmu eftir að Crouch fékk að líta sína aðra áminningu í leiknum.

Tottenham komst einnig áfram með 2-0 sigri á Brighton. Erik Lamela og Harry Kane skoruðu mörk Lundúnarliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×