Enski boltinn

Newcastle fær annan leikmann frá Anderlecht | Aldur hans á reiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mbemba er einhvers staðar á bilinu 20-26 ára.
Mbemba er einhvers staðar á bilinu 20-26 ára. vísir/getty
Newcastle United hefur náð samkomulagi við Anderlecht um kaup á kóngóska varnarmanninum Chancel Mbemba.

Mbemba hefur samið um kaup og kjör við Newcastle og er búinn að standast læknisskoðun hjá félaginu. Hann á einungis eftir að fá atvinnuleyfi.

Mbemba er annar leikmaðurinn sem Newcastle kaupir frá Anderlecht í sumar en ekki er langt síðan Skjórarnir keyptu serbneska framherjann Aleksandar Mitrovic af belgíska félaginu.

FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, er með mál Mbemba til rannsóknar en leikmaðurinn er skráður með fjóra mismunandi fæðingadaga.

Samkvæmt fyrstu félögunum sem Mbemba spilaði með í heimalandinu, Kongó, er hann fæddur 8. ágúst 1988. Knattspyrnusamband Kongó segir hann hins vegar fæddan 30. nóvember 1991.

Mbemba sjálfur heldur því fram að hann hafi fæðst árið 1990 en Anderlecht segir að fæðingadagur hans sé 8. ágúst 1994.

Það verður því spennandi að sjá hvaða niðurstaða fæst í mál Mbemba, verðandi leikmanns Newcastle.


Tengdar fréttir

Mitrović genginn til liðs við Newcastle

Aleksandar Mitrović skrifaði undir fimm ára samning við Newcastle í dag en talið er að Newcastle greiði þrettán milljónir punda fyrir serbneska framherjann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×