Enski boltinn

Neville hefur aldrei þjálfað, sótti ekki um starfið og grínaðist með að berja konur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Phil Neville var aðstoðarþjálfari bróður síns hjá Valencia en hann hefur aldrei verið aðalþjálfari.
Phil Neville var aðstoðarþjálfari bróður síns hjá Valencia en hann hefur aldrei verið aðalþjálfari. Vísir/Getty
Phil Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og Everton, var í gær, ansi óvænt, ráðinn þjálfari enska kvennalandsliðsins sem er það besta í Evrópu samkvæmt styrkleikalista FIFA.

Ráðningin þykir ansi sérstök í ljósi þess að Neville hefur aldrei áður verið aðalþjálfari og hann sótti ekki einu sinni um starfið. Það gerðu aftur á móti nokkrir öflugir aðilar eins og kom fram í frétt Guardian í síðustu viku.

Samkvæmt The Guardian átti þekktur sjónvarpsmaður í Englandi hugmyndina um að ráða Neville en hún vaknaði eftir nokkra stífa í boði sem enska knattspyrnusambandið hélt í desember.

„Var að berja konuna“

Það var þó ekki sú staðreynd að Neville hefur aldrei þjálfað eða að hann sótti ekki um starfið sem gerði allt vitlaust í Englandi í gær þegar að tilkynningin var send heldur voru gömul tíst nýja landsliðsþjálfarans af Twitter grafin upp.

Þar fer Neville ófögrum orðum um konur og lítur vægast sagt illa út, sérstaklega í ljósi þess að nú er hann landsliðsþjálfari kvenna. Hann var fljótur að eyða Twitter-aðgangi sínum en þá voru menn löngu búnir að vista tístin.

Það versta var frá 1. júlí 2011 en þá skrifaði Neville: „Kominn aftur, vel slakur - var að berja konuna og líður miklu betur núna.“

Hann svaraði einnig systur sinni, Tracey Neville, í desember 2012 þegar að hún skaut á hann fyrir að vera milljarðamæringur en vilja samt skipta reikningum í tvennt á veitingastöðum.



Svarar í næstu viku

„Þið konur viljið alltaf jafnrétti þangað til það kemur að því að borga reikninginn,“ sagði Neville og bætti við myllumerkinu #hræsnarar.

Einn janúarmorgun árið 2012 vaknaði svo Neville og bauð bara karlmönnum góðan daginn og fékk greinilega eitthvað bágt fyrir það. Hann sendi þá út annað tíst sem hljóðaði svo:

„Þegar að ég sagði góðan daginn menn hélt ég að konurnar væru of uppteknar að elda morgunmat, gera krakkana klára eða búa um rúmin. Afsakið. Góðan daginn, konur!“

Fram kemur í frétt Daily Mail að Phil Neville ætli ekki að svara fyrir þetta allt saman fyrr en í næstu viku þegar að hann verður formlega kynntur til leiks á blaðamannafundi enska sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×