Lífið

Netverjar eru trylltir í að rokka á sokkunum

GUÐRÚN ANSNES skrifar
Sigrún ásamt Loka, en hann er ein helsta ástæða hás hlutfalls ósamstæðra sokka í skúffum heimilisins.
Sigrún ásamt Loka, en hann er ein helsta ástæða hás hlutfalls ósamstæðra sokka í skúffum heimilisins.
„Ég er í sjokki, og er eiginlega búin að vera óvinnufær í dag,“ segir Sigrún Guðlaugardóttir, en hún er sú sem setti af stað viðburðinn Rokkum á sokkum, sem farið hefur sem eldur um sinu á Facebook. Hafa nú á fjórða þúsund manns staðfest þátttöku sína.

Að rokka á sokkum er sumsé framtak þar sem fjölbreytileikanum er fagnað, hverjum einum og einasta einstakling.

Það eina sem þarf til að vera með og sýna stuðning í verki er að klæðast ósamstæðum sokkum þann 12. júní næstkomandi og jafnvel skella mynd á Facebook. Eru sokkarnir því býsna gildishlaðnir, en þeir tákna hve ólík við erum en samt jöfn.

„Hugmyndin spratt fram í eldhúsinu hjá mér á miðvikudagskvöldið þegar frænka mín var í heimsókn og ég í ósamstæðum sokkum og þá fór frænka mín að tala um átak sem var í gangi í Svíþjóð fyrir skemmstu,“ útskýrir Sigrún. Þar tóku þúsundir Svía við sér og fjöldi þjóðþekktra einstaklinga og varð sænska útgáfan af Rokkað á sokkum ansi stórt fyrirbæri þar í landi.

„Ég átti náttúrulega engan veginn von á að þetta myndi fara svona á flug, ég var meira að hugsa bara um skólann sem ég vinn í eða eitthvað álíka,“ segir Sigrún og er augljóslega frá sér numin. „Snilldin við þetta er að það kostar ekki neitt að sýna stuðninginn,“ segir Sigrún og bætir við flissandi: „Ætli ég verði ekki að biðja OCD-sjúklinga fyrirfram afsökunar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×