Erlent

Netárásir Norður-Kóreu gætu rústað borgum eða fellt fólk

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kim Jong-Un, einráður í Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, einráður í Norður-Kóreu. vísir/ap
Norður-Kórea hefur yfir að ráða tölvuþrjótum sem eru færir um lama mikilvægar stofnanir, fyrirtæki og að bana fólki með árásum sínum. Þetta segir prófessor sem náði að flýja landið í samtali við BBC.

Í rúm tuttugu ár kenndi Kim Heung-Kwang tölvunarfræði í háskólanum í Hamheung Computer Technology University áður en hann náði að flýja landið árið 2004. Stór hluti nemenda hans er nú partur af tölvuþrjótahópnum Bureau 121. Hópurinn er talinn starfa frá Kína og er talinn standa að baki fjölda árása. Þar má nefna árásina á Sony auk fleiri sem beint var að bönkum og kjarnorkuverum nágrannaríkisins í suðri.

„Fjöldi nethermanna ríkisins hefur margfaldast og nú eru þeir um 6.000. Á milli tíu og tuttugu prósent af fjármagninu sem fer í herinn fer í netárásir. Verstu árásirnar gætu haft svipuð áhrif og árásir með sprengjum og byssum, borgir gætu eyðilaggst og fólk látist,“ segir Kim.

Fyrr á árinu réðust Norður-Kóreumenn á kjarnorkuver í Suður-Kóreu. Kim segir að þar hafi hurð skollið nærri hælum því ef þrjótarnir hefðu náð stjórn á kjarnaofninum sjálfum hefði voðinn verið vís.


Tengdar fréttir

Óljóst hver slökkti á interneti Norður-Kóreu

Norður-Kórea hafði ekki aðgang að internetinu í um níu tíma í fyrradag. Einungis æðstu yfirmenn landsins hafa aðgang að internetinu vegna strangrar ritskoðunar. Spjótin beinast að Bandaríkjunum eða Kína.

Norður-Kórea hótar Bandaríkjunum

„Orðrómar um netárás Norður-Kóreu var búinn til af leppstjórn Suður-Kóreu,“ segir í tilkynningu frá Pyonyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×