Innlent

Netárás á kerfi Landsnets hefði alvarlegar afleiðingar

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Ljóst er að samfélagið myndi nánast lamast væri gerð vel heppnuð árás á kerfi Landsnets.
Ljóst er að samfélagið myndi nánast lamast væri gerð vel heppnuð árás á kerfi Landsnets. vísir/vilhelm
„Við erum með öflugar varnir og látum reglulega reyna á þær,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

Á mánudag greindi sænska ríkisútvarpið, SVT, frá því að tölvuþrjótar væru að skipuleggja árás á innviði sænska samfélagsins, eins og raforku- og símakerfið. Tækist slík árás myndi það hafa gríðarleg áhrif á sænska samfélagið og raska daglegu lífi mikið.

„Við fáum óháða sérfræðinga til að prófa varnirnar með skipulögðum hætti með árásum sem hafa það að markmiði að láta reyna á okkar varnir og gerum viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við síbreytilegum ógnum eða áhættu,“ segir Steinunn.

Steinunn Þorsteinsdóttir
Á Íslandi er aðeins eitt flutningskerfi raforku en mörg svæðisbundin kerfi eða dreifiveitur. Flutningskerfið tekur við raforku og flytur hana til sex stórnotenda og dreifiveitna sem flytja rafmagnið til landsmanna. Landsnet á og rekur allar meginflutningslínur rafmagns á Íslandi. Vel heppnuð tölvuárás á kerfi þeirra myndi því hafa gríðarleg áhrif á daglegt líf landsmanna.

„Þessi áhætta er skilgreind í okkar áhættumati og varnir á borð við eldveggi og uppsetning tölvukerfanna taka mið af áhættunni. Ef árás, eins og talað er um í frétt SVT, myndi eiga sér stað í okkar kerfi myndi það hafa víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag.“

Steinunn bætir við að Landsnet sé í samstarfi við lögreglu, Póst- og fjarskiptastofnun og Orkustofnun í þessum málaflokki. Þá sé Landsnet einnig í víðtæku samstarfi við öll flutningsfyrirtæki raforku á Norðurlöndunum.

„Fá fyrirtæki sem eru tengt internetinu eru alveg laus við sjálfvirkar, kerfisbundnar tilraunir til að komast inn í kerfi fyrirtækisins.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×