Erlent

Netanyahu gagnrýnir viðræður Bandaríkjanna við Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir/EPA
„Leiðtogar Bandaríkjanna hafa áhyggjur af öryggi ríkisins. Leiðtogar Ísrael hafa áhyggjur af því að ríkið lifi af.“ Þetta sagði Benjamn Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, þar sem hann hélt ræðu í Bandaríkjunum í dag. Forsætisráðherrann mun einnig halda ræðu í fulltrúadeild þingsins þar í landi á morgun.

Repúblikanar fengu Netanyahu til Bandaríkjanna, án þess að Barack Obama, forseti, kæmi að þeirra ákvörðun. Þeir hafa deilt undanfarin misseri um samningaviðræður Bandaríkjanna og Íran um kjarnorkuþróun Íran.

Netanyahu sagði heimsókn sína ekki vera til að koma höggi á Obama, en hann sagði forsetann ekki skilja þær áhyggjur sem Ísraelar hafa af þróun mála í Íran.

„Ég hef siðferðilega skyldu til að ræða þessa hættu á meðan enn er tími til að koma í veg fyrir hana,“ sagði Netanyahu samkvæmt AP fréttaveitunni.

Forsætisráðherrann sagði að þrátt fyrir allt væri samband Bandaríkjanna og Ísrael sterkt.

„Fregnir af vandræðum í sambandi Ísrael og Bandaríkjanna eru ekki einungis ótímabærar. Þær eru einfaldlega rangar. Bandalag okkar er sterkara en áður.“

Erindreki Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Samantha Power, hélt eining ræðu en hún sagði að þrátt fyrir viðræður Bandaríkjanna og Íran, væri Obama staðráðinn í að koma í veg fyrir að Íran kæmi upp kjarnorkuvopnum.

„Ef viðræður mistakast, þekkjum við hætturnar af því að Íran búi yfir kjarnorkuvopnum. Við munum ekki leyfa því að gerast.“

Viðræður á milli Bandaríkjanna og Íran hafa staðið yfir síðustu mánuði og nýverið var kynnt að árangur hefði náðst. Sá árangur sneri að því að Íran myndi setja áætlanir sínar á ís í tíu ár, en að á seinni árum samningsins gæti Íran hraðað vinnu sinni.

Netanyahu segir það ekki ásættanlegt og hefur gefið í skyn að Bandaríkin hafi gefist upp á að koma í veg fyrir að Íran öðlist kjarnorkuvopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×