Lífið

Nennir engu bulli lengur

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ingveldur Ýr Jónsdóttir söngkona er fimmtug í dag.
Ingveldur Ýr Jónsdóttir söngkona er fimmtug í dag.
„Ég fagna stóra deginum með því að halda risaveislu á pallinum heima. Hér verður bara eitt allsherjarættarmót!“ segir Ingveldur Ýr Jónsdóttir söngkona, sem fagnar fimmtugs­afmæli sínu í dag.

Hún segist mikið afmælisbarn sem elskar að halda veislur. Pallurinn á heimilinu sé sérsniðinn til þess að halda stór og góð partí. „Loksins get ég notað hann,“ segir Ingveldur, hlæjandi.

Aðspurð hvort sé ekki nóg um skemmtiatriði í afmælisveislum hjá söngkonum segist Ingveldur nú halda það. „Ég á kór. Það hefur verið ýjað að því þau geri eitthvað til að gleðja mig,“ útskýrir hún og bætir við að systir hennar, Helga Braga Jónsdóttir, og stjúpmóðir, Ragnheiður Tryggvadóttir, báðar leikkonur, komi til með að sjá um veislustjórn.

„Svo er ég búin að elda súpu ofan í alla og nóg af víni og málið dautt!“

En hvernig er tilfinningin að verða fimmtug?



„Hún er frábær. Ég hef verið að pæla aðeins í þessu. Það er æðislegt að verða fimmtugur. Efasemdir minnka og ég finn að ég nenni engu bulli lengur. Ég hef heyrt þetta sama áður frá konum sem hafa orðið fimmtugar, en skildi það ekki þá. Nú er ég byrjuð að sjá þetta. Ef maður spilar hlutina rétt þá kemur sjálfsöryggið og sannfæringin með þroskanum. Mér finnst það eitthvað til að fagna. Þetta er aldur frelsisins!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×