Innlent

Nemendur sigra kennara í fyrsta sinn í þrjátíu ár

Hér má sjá sigurliðiðVISIR/VILHELM
„Við gengum burt eftir leikinn með skottið á milli lappanna en við látum þetta þó ekki bitna á nemendum í einkunnagjöf,“ segir Jason Ívarsson, kennari í Austurbæjarskóla, hýr í bragði um árlegt fótboltamót skólans.

Fótboltamótið er hefð við skólann og er alltaf haldið á árshátíðardegi skólans. Í gær sigraði strákalið nemenda karlkyns kennaralið í fyrsta skipti í þrjátíu ár. Úrslitin urðu 2-0.

„Nemendur hafa beðið lengi eftir þessum degi, en það hlaut að koma að þessu,“ segir Jason sem hefur tekið þátt í keppninni frá upphafi.

Þá sigraði stelpuliðið kvenkyns kennaraliðið í vítaspyrnukeppni eftir jafnan leik, en ekki í fyrsta sinn.

Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari í tíunda bekk, segir mikla spennu hafa verið fyrir leikinn og að taugar keppenda hafi verið þandar til hins ýtrasta. Þá sérstaklega í strákaliðinu þar sem þeir hafi ekki sigrað kennaraliðið í 30 ár. ,,Þeir ætluðu sér að vinna og nú loksins unnu þeir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×